138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki voru þetta mikil umræðustjórnmál af hálfu hv. þingmanns í síðara andsvari hans, eins og hann á nú oft vanda til að vera málefnalegur hér við umræður, heldur meira eins og upphrópanir. En vegna þess að við tökum ekki þessa viðamiklu umræðu í andsvörum bendi ég hv. þingmanni á að kynna sér bæði skrif og ræður til að mynda Þorvaldar Gylfasonar prófessors um þetta efni.

Það kemur mér á óvart ef hv. þingmaður hefur fylgst svo illa með stjórnmálaumræðu að hann geri sér ekki ljóst að það hefur verið sjónarmið okkar margra jafnaðarmanna að ýmisleg spilling og brask tengt einkavæðingum, fyrst einkavæðingu auðlindanna og síðan í kjölfar hennar einkavæðingu bankanna, hafi að mörgu leyti orsakað það ástand sem á endanum leiddi til ófarnaðar okkar. Hin pólitísku átök hafa auðvitað snúist um þessi grundvallaratriði, um þjóðareign eða einkavæðingu, um það hvort arðurinn eigi að renna til einkaaðila eða til almennings. Þetta er einfaldlega hluti af þeim pólitísku átökum. Ég held að við þurfum ekki að hrópa neitt upp um bull í því efni, ég held að við getum bara horft til þess að þar hafa menn skipað sér í ólíkar fylkingar út frá ólíkum hagsmunum sem þeir taka fram yfir aðra hagsmuni og þá á ég ekki við eigin hagsmuni manna heldur bara hagsmuni í samfélaginu. Ég held að það að ráðstafa 600 tonnum af afla með þessum hætti sé fyllilega í samræmi við þær áherslur sem uppi voru af hálfu stjórnarflokkanna. Ég segi einfaldlega að ég tel að í krafti þess ríka þjóðarvilja sem er fyrir almannaeign á auðlindinni og þess að almenningur njóti arðs af henni og að einkavæðingin í sjónum verði afturkölluð, hafi stjórnarflokkarnir og hæstv. sjávarútvegsráðherra fullt lýðræðislegt umboð til að gera þessa tiltölulega litlu breytingu án þess að menn þurfi að hóta þinginu eða meiri hlutanum þess vegna.