138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[15:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla. Tilgangur frumvarpsins er fyrst og fremst sá að skapa svigrúm til þess að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti í ríkisútgjöldum til framhaldsskóla.

Ég mun fara yfir helstu greinar frumvarpsins og skýra þær eftir fremsta megni. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt verði að fela skólameistara forstöðu í fleiri en einum framhaldsskóla eftir því sem aðstæður leyfa og við verður komið. Með slíkri ráðstöfun gefst svigrúm til aukinnar hagkvæmni og til að bregðast tímabundið við aðstæðum. Ég legg mikla áherslu á að hér er eingöngu rætt um heimild til að fela skólameistara tímabundna stjórn í fleiri en einum framhaldsskóla. Þetta gæti átt við skóla sem eru nálægt í rúmi og smáar einingar en gætu notið góðs af auknu samstarfi sín á milli, til að mynda með aukinni samkennslu eða einhverju slíku þannig að við skulum huga að þessu. Þetta er gert út frá sjónarmiðum um að hægt sé að auka samlegð í framhaldsskólakerfinu.

Í 2. gr. er lögð til breyting á 1. mgr. 15. gr. gildandi laga um námseiningar en þar er miðast grundvöllur námseininga við vinnu nemenda og skal hún metin í stöðluðum námseiningum. Eitt námsár sem mælir alla ársvinnu nemenda með fullnaðarárangri telst 60 einingar. Þá er miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda sé 180, sem er fjölgun um fimm daga á skólaári frá því sem var í eldri lögum um framhaldsskóla, og er grundvöllur núverandi kjarasamninga framhaldsskólakennara. Fyrirhuguð lenging kallar á breyttan kjarasamning og hækkuð útgjöld enda lá það auðvitað fyrir þegar framhaldsskólalögin núgildandi voru samþykkt á þinginu að þau mundu hafa í för með sér kostnaðarauka. Í kostnaðarumsögn á þeim tíma var gert ráð fyrir að breytingar gætu haft í för með sér kostnaðarauka upp á allt að 1,7 milljarða.

Svo að ekki komi til kostnaðarauka er lagt til að árlegur fjöldi vinnudaga — að þessari breytingu verði frestað — verði áfram að lágmarki 175 í stað 180. Hér er um að ræða tímabundna ráðstöfun og er henni ætlað að gilda til 1. ágúst 2015. Frestun sem hér er mælt fyrir um helst í hendur við þá frestun sem er lögð til í 5. gr. frumvarpsins, frestur framhaldsskóla til að setja sér námsbrautalýsingar er til 1. ágúst 2015.

Auðvitað er heilmikil vinna í gangi í framhaldsskólum þessa lands og margir skólar langt komnir eða þegar búnir að móta sér nýjar námsbrautalýsingar. Tveir skólar hafa verið í sérstöku tilraunaverkefni í vetur, framhaldsskólinn í Mosfellsbæ og Kvennaskólinn í Reykjavík. Eftir veturinn verður metið hvernig til hefur tekist en fyrst og fremst er tilgangur þessa ákvæðis að auka svigrúm skóla. Mér finnst mikilvægt að undirstrika það að við viljum ekki stöðva þá þróun í starfi framhaldsskólanna sem er mjög áhugaverð og margar þær tillögur sem ég hef séð eru alveg feikilega góðar. Við erum eingöngu að gefa aukinn frest til þess að hægt sé að hægja á ferlinu og er það með sparnaðarsjónarmið í huga. Ég get nefnt til að mynda breytingar sem voru kynntar í Menntaskólanum á Akureyri núna í vor. Einnig breytingar sem voru kynntar í Menntaskólanum við Sund. Allt eru þetta mjög spennandi hlutir í skólaþróun, en eigi að síður höfum við ekki fjárhagslegt bolmagn til að veita þessum breytingum nægilegan fjárhagslegan stuðning til að þetta gangi upp.

3. gr. er af svipuðum meiði sprottin. Þar eru lagðar til breytingar á ákvæðum gildandi laga um vinnustaðanám. Ein meginforsenda þess að einstakir skólar gætu borið ábyrgð á gerð sérstaks starfsþjálfunarsamnings um vinnustaðanám nemenda var m.a. að komið yrði á fót sérstökum sjóði um vinnustaðanám. Í því sambandi var sérstakt bráðabirgðaákvæði gildandi laga við 28. gr. og skyldi það koma að fullu til framkvæmda 1. ágúst 2011. Það er hins vegar hæpið að skilyrði skólanna til þess að taka á sig fyrrnefnda ábyrgð batni í nánustu framtíð. Því er lagt til að ráðherra geti með samningi falið skóla eða öðrum aðila umsýslu með gerð og skráningu samninga og eftirlit með þeim.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að tekin verði upp í gildandi lög ákvæði um skólasöfn. Við undirbúning og vinnu við námskrárgerð hefur, í samræmi við markmiðsgreinar laga um framhaldsskóla, verið lögð áhersla á fimm grunnþætti menntunar, læsi í víðum skilningi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf.

Læsi hefur verið eitt af okkar helstu áhyggjuefnum í skólastarfi. Því miður hefur lesskilningi farið hrakandi ef marka má PISA-kannanir undanfarna áratugi. Við fáum niðurstöður úr nýrri PISA-könnun í haust og vitum ekki hver hún verður en það er full ástæða til að bregðast við þeim vísbendingum sem kannanir hafa veitt okkur. Skólasöfn hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þessu sambandi, einkum varðandi skilning á eðli upplýsinga og gagna sem nemendur þurfa að hafa greiðan aðgang að í námi sínu og tómstundum. Skólasöfn eru því mikilvægur liður í því að skapa öflugt námssamfélag í hverjum skóla og ekki vanþörf á, sérstaklega þar sem við viljum efla upplýsingalæsi og hvers kyns miðlalæsi. Þar koma skólasöfnin sterklega við sögu.

Þetta ákvæði var ekki tekið upp í gildandi lög. Ég tel af umræðum að dæma að skólasöfn skuli ekki afleggja, enda er gert ráð fyrir skólasöfnum í framhaldsskólum og sérstöku starfsfólki með menntun á sviði bókasafns- og upplýsingatækni. Ákvæðið gerir ekki ráð fyrir auknum verkefnum í framhaldsskólum heldur frekar að söfnunum sé gefinn sá sess sem þeim ber að hafa í daglegu starfi framhaldsskóla. Með þessu minnum við líka á áherslu á læsi og lesskilning. Verði safni ekki við komið í skóla gerir ákvæðið ráð fyrir að aðgangur að slíku safni geti verið með öðrum hætti, svo sem í tengslum við bókasafn á vegum sveitarfélags, eins og við höfum dæmi um, þannig að þetta er ekki til kostnaðarauka. Þetta er fyrst og fremst til að lyfta sessi safnanna og undirstrika áherslu á lesskilning og læsi.

Að lokum er það 5. gr. sem ég nefndi lauslega. Þar er rætt um námsbrautalýsingar og lengdur frestur til þeirra. Ástæða er hins vegar til að halda þeim möguleika opnum, eins og ég nefndi hér áðan, að skólar innleiði nýtt nám eins og þegar er hafið í nokkrum skólum. Gefinn er almennur frestur til 2015. Það má því reikna með að lögin verði þá að fullu komin til framkvæmda. Miðað við þær aðstæður sem uppi eru í efnahagsmálum teljum við rétt að hafa varann á gagnvart útgjöldum ríkisins í þessum efnum og teljum að skólunum sé gefið færi. Við finnum hins vegar mikinn kraft í þróunarstarfi í skólunum og reynum auðvitað, með okkar takmörkuðu fjármunum, að ýta undir hann eftir fremsta megni.

Ég legg síðan til að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. menntamálanefndar til umfjöllunar og umræðu.