138. löggjafarþing — 119. fundur,  7. maí 2010.

árlegur vestnorrænn dagur.

311. mál
[13:05]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar. Nefndin var einhuga um þetta nefndarálit.

Með tillögunni, sem kemur frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins, er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um stofnun vestnorræns dags sem haldinn verði hátíðlegur árlega til skiptis í einu vestnorrænu landanna.

Markmið vestnorræna dagsins á Vestur-Norðurlöndum yrði að marka vestnorræna sögu og menningu í löndunum sjálfum og auka þar með samband þeirra og samkennd.

Nefndin tekur undir það sjónarmið sem fram kemur í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins, að eðlilegt sé að Norrænu húsunum í Færeyjum, Grænlandi og Íslandi verði falið að standa að skipulagningu Vestnorræns dags, verði honum komið á.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.