138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

almenn hegningarlög.

547. mál
[14:11]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi nr. 547 á þskj. 937 sem lýtur að upptöku eigna. Eins og þingheimi er vel kunnugt blasa fjölmörg verkefni við okkur í íslensku samfélagi sem við þurfum að takast á við í nýjum og áður óþekktum aðstæðum. Eitt af því sem við Íslendingar höfum litla reynslu af að fást við eru afleiðingar af víðtækri pólitískri spillingu og stórfelldu fjármálalegu misferli. Fyrir mörgum öðrum þjóðum veraldarinnar eru það hins vegar ekki ný viðfangsefni og því hafa verið þróuð úrræði í lögum í öðrum löndum sem við eigum ekki til í löggjöf okkar. En vegna þeirra aðstæðna sem við erum í þurfum við að líta til þeirra ráða sem menn hafa þróað í lögum annarra landa og kanna að hve miklu leyti ástæða er til að innleiða þau í okkar rétt til að hjálpa okkur til að takast á við afleiðingar hrunsins.

Sú þróun sem þetta mál lýtur að, um upptöku eigna, er einkanlega sú þróun í löggjöf að vinna gegn því að það borgi sig að fremja glæpi. Hvernig verður það árangursríkast gert? Það verður árangursríkast gert með því að leita eftir því að gera upptækan hagnað af spillingu og glæpum hvers konar. Um leið og samfélag okkar er að þróast verðum við alltaf að þróa líka rétt borgaranna og vernd borgaranna, m.a. vernd þeirra í refsiréttinum, undirstrika og tryggja það að hver maður er saklaus uns sekt hans er sönnuð. En við megum ekki þróa skipulag okkar á þann veg að það verði svo að það borgi sig nánast að fremja glæpi. Því leita menn, ekki bara hér heldur um allan heim, að nýjum og nýjum leiðum sem geti samrýmst þeim hugmyndum sem við höfum um grundvallarmannréttindi og vernd borgaranna en dragi jafnframt eins og kostur er úr ólögmætum ávinningi manna af því að brjóta lög.

Hluti af þeirri þróun löggjafar er það sem á enskri tungu er kallað „Non-Conviction Based Forfeiture“ og mætti á íslensku tala um að gera ávinning upptækan án refsidóms. Þetta er úrræði sem er að finna í mörgum löndum, einkum ruddi það sér fyrst til rúms í þeim löndum sem búa við engilsaxneskan rétt. Frændur okkar Írar innleiddu það í sinn rétt á síðasta áratug síðustu aldar, árið 1996, og hafa síðan náð gríðarlega miklum árangri í því að gera upptækan ávinning af ólögmætri starfsemi. Í mörgum öðrum löndum sem byggja á engilsaxneskum rétti er úrræðið til en líka í einkamálahefðinni, m.a. í Sviss, útgáfur af þessu í Noregi og þannig mætti áfram telja.

Einnig er fjallað um þetta úrræði í samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu og því beint til aðildarríkjanna að yfirvega hvort rétt sé í baráttu við spillingu að innleiða þetta lagaúrræði í rétt aðildarríkjanna án þess að beinlínis sé mælt fyrir um það. Sá samningur hefur verið staðfestur af öllum Norðurlöndunum utan okkar en staðfestingarmál var á málaskrá ríkisstjórnarinnar og aðild okkar að spillingarsáttmálanum verður þannig fullgild trúlega á allra næstu missirum. Sömuleiðis er fjallað um úrræðið í tengslum við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu þó að þetta mál sé ekki flutt til að greiða fyrir þeirri umsókn, sem er mikið áhugamál þess þingmanns sem hér stendur. En vakin er athygli á því að þessar heimildir eru í lögum ýmissa aðildarríkja og eitt af því sem þetta upptökuúrræði eigna er gagnlegt við er að sækja eignir sem menn hafa haft af ólögmætri starfsemi yfir landamæri. Þó að menn hafi skotið eignunum úr því landi þar sem þeir gerðust brotlegir sé mikilvægt að hægt sé að sækja eignirnar yfir landamæri og þess vegna þurfi að huga að því að þar sem þessar heimildir séu ekki í íslenskum rétti geti verið að aðildarríki í Evrópusambandinu, svo sem eins og á Írlandi, vilji sækja eignir hingað til lands og því þurfi að skoða með hvaða hætti þurfi að mæta því í íslenskri löggjöf.

Í meginatriðum snýst þessi gerð af upptöku eigna um það að saksóknaravaldið eigi valkost þegar það hefur rannsakað mál þar sem það telur að um refsiverðan verknað hafi verið að ræða en telur að það hafi ekki nægilega ítarleg sönnunargögn til að fá örugglega felldan refsidóm yfir hinum brotlega. En sé það hins vegar mat ákæruvaldsins að samkvæmt þeim sönnunarkröfum sem eru gerðar í einkamálum manna á milli, sönnunarkröfum sem dómarar gera í einkamálum, að þau sönnunargögn sem fyrir liggi um þessi brot uppfylli sannarlega þær sönnunarkröfur einkamálaréttarins og því sé með eignardómsmáli hægt af hálfu saksóknaravaldsins að fara ekki í refsimál við þann sem í hlut átti, enda telji saksóknarinn að það muni ekki ná fram að ganga því að sannarlega leggjum við ríka áherslu á að hið opinbera verði að sanna umfram allan minnsta vafa til að fá dóm í refsimáli — en að ákæruvaldið geti stefnt til upptöku eignanna og þá séu gerðar kröfur einkamálaréttar og saksóknaranum nægi þá að sýna fram á að verulegar líkur séu á því að viðkomandi eignir séu brotum tengdar.

Nú er sjálfur frumvarpstextinn, sem hér er settur fram, fremur stuttur og einfaldur, einfaldlega til þess ætlaður að opna þessa leið. Ég tel að það sé eðlilegt í hinni þinglegu meðferð, þegar hv. allsherjarnefnd leitar umsagnar um málið, að það sé skoðað hvort í tengslum við innleiðingu á þessu úrræði sé rétt að festa enn frekar og nákvæmar við hvaða aðstæður og með hvaða hætti saksóknarinn eigi þá að fara fram í slíkum málum. Einnig er gert ráð fyrir því að á grundvelli mála sem þessara megi kyrrsetja þær eignir sem í hlut eiga en við afgreiddum í efnahags- og skattanefnd fyrr á árinu heimildir til skattrannsóknayfirvalda til að kyrrsetja eignir og við höfum þegar séð hversu öflugt tæki það er til að vinna í þeim málum sem nú kalla á úrlausnir í okkar samfélagi.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að ástæða er fyrir því að æ fleiri lönd hafa verið að innleiða þessi úrræði í sinn rétt. Ástæðan er sú að okkur er það mikilvægt að gera upptækan ólögmætan ávinning af brotastarfsemi vegna þess að það má ekki þróast á þann veg að það borgi sig einfaldlega að fremja glæpi. Lagaumhverfi okkar þarf þvert á móti að vera með þeim hætti að eins og kostur er sé hægt að sækja slíkan ávinning og gera hann upptækan einmitt til að það borgi sig ekki að fremja glæpi. Þessi úrræði hafa víða verið notuð um langt skeið og hefur reynt á ákvæði þeirra, m.a. fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Hér erum við að tala um ákvæði eins og um sanngjarna málsmeðferð, sem er gríðarlega mikilvægt að borin sé full virðing fyrir og gætt að í hvívetna, en þau ákvæði hafa ekki verið talin standa gegn þessum úrræðum. Sömuleiðis hefur reynt á sjónarmið um einkaeignarrétt í málum af þessu tagi og hvað það varðar hefur sú löggjöf sem þar hefur reynt á haldið, enda eru úrræði af þessu tagi kannski fremur innleidd til að verja eignarrétt manna fyrir brotastarfsemi, fyrir glæpum og fyrir ólögmætum aðgerðum sem rýra eignir manna og til þess einmitt að gera upptækar eignir sem menn með óréttmætum og ólögmætum hætti hafa áunnið sér.

Í þeim sérstöku aðstæðum sem við erum í er eðlilegt að þetta komi á dagskrá og við tökum þá umræðu hvort við séum ekki þangað komin, eins og fjölmargar aðrar þjóðir, að þurfa að hafa þetta úrræði fyrir saksóknara fyrir hendi. Auðvitað geta verið aðstæður þar sem saksóknarinn telur sig vita nánast fyrir víst og hafa nánast fullar sönnur fyrir því að brot hafi verið framin og jafnvel gríðarlegur ávinningur komið í aðra hönd þeim sem frömdu brotin en að eitthvað skorti þó upp á að unnt sé að fá refsidóm í málinu. Þá er það að mati flutningsmanns ákaflega mikilvægt að saksóknarinn hafi við slíkar aðstæður aðra leið og sæki ekki að einstaklingnum, því að hver maður á að vera saklaus uns sekt hans er sönnuð, heldur að eignunum og geri þær upptækar.