138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[19:59]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef hlýtt á megnið af þeim umræðum sem hafa átt sér stað í dag um það frumvarp sem liggur hér fyrir um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki. Það sem mér finnst standa upp úr í þeirri umræðu er það að þeim sem hafa lagt inn gagnrýni á það frumvarp sem hér liggur fyrir þyki það ekki mæta nægilega vel athugasemdum um fjármálakerfi landsins, raunar allt frá því fyrir hrun, þ.e. að frumvarpið standist ekki þær væntingar sem menn gerðu til þess sem tæki til heildarendurskoðunar á löggjöf um fjármálamarkað á Íslandi.

Vissulega hefur verið umræða um að sjálfstæðismenn hafi mest rætt um þetta frumvarp og það er í sjálfu sér ekkert skrýtið að sjálfstæðismenn ræði þetta með þeim hætti sem raun ber vitni í dag, ekki síst þegar höfð er í huga sú orðræða sem hefur verið um þátt þess flokks í því áfalli sem þjóðin varð fyrir, ekki síst í ljósi þeirra aðgerða sem Sjálfstæðisflokkurinn greip svo til í framhaldinu. Ég minni á að þær tillögur sem unnið hefur verið eftir við þetta verk eru eftir Finnann Kaarlo Jännäri og síðan var Mats Josefsson, sænski ráðgjafinn, tekinn til vinnu hér og vann lengi. Jafnframt var tekin ákvörðun um þá margrómuðu rannsóknarskýrslu sem hefur verið til umræðu allt frá 12. apríl. Á þessum grunni höfum við tækifæri til að byggja nýja og heildstæða löggjöf um íslenskan fjármálamarkað. Eftir allt þetta starf þykir þeim sem gerst eru að sér í þessum málefnum og þeirri löggjöf sem hér er til umræðu greinilega ekki nógu langt gengið.

Ýmsar athugasemdir hafa verið settar fram um það. Þó ber að undirstrika það líka að í áliti 2. minni hluta viðskiptanefndar sem þeir ágætu hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigurður Kári Kristjánsson undirrita eru tiltekin atriði sem til góðs vegar horfa. Það skal ekkert undan dregið að þar eru nefnd ýmis atriði sem til betri vegar eru færð og full ástæða er til að halda því á lofti. Þar er m.a. kveðið skýrt á um heimildir Fjármálaeftirlitsins til inngripa þegar þörf krefur á, heimildir til tiltekinna tegunda fjármálafyrirtækja til að stunda óskyldan rekstur eru takmarkaðar og það er gert á grunni máls sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson flutti, annar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd. Loks vil ég nefna líka að hömlur eru settar á lánveitingar fjármálafyrirtækja til eigenda virkra eignarhluta.

Það breytir hins vegar ekki því að eftir standa stór mál sem full ástæða er til að gaumgæfa hvernig fara beri með. Vonbrigði þeirra sem gagnrýnt hafa frumvarpið og kallað eftir fleiri þáttum úr þeirri vinnu sem unnin hefur verið eru kannski þau að núna eigum við að hafa haft tækifæri til að sjá frumvarp um breytingar meira fullburða en hér getur að líta.

Ég hef heyrt í umræðunni að þrátt fyrir að þetta ágæta frumvarp yrði að lögum yrðu eftir sem áður allar leiðir færar til að hola innan bankana ef menn kjósa. Ég vona að það standi ekki til en engu að síður hefur maður ákveðinn ótta af því miðað við hvernig umræðan um bankakerfið er. Nægir í því sambandi að nefna ágæta ræðu hv. þm. Ólafar Nordal og andsvar varaformanns viðskiptanefndar, Magnúsar Orra Schrams, um eignarhald á hinum nýju bönkum. Ég tók sérstaklega eftir því að hv. þm. Magnús Orri undirstrikaði í báðum andsvörum sínum að ríkisstjórnin hefði ekki einkavætt og ekki selt bankana. Ég er ekki sammála því mati hv. þingmanns. Ef svo væri hefði ríkisstjórnin ekki leitað með sérstöku frumvarpi milli jóla og nýárs eftir heimild til sölu á þessum bönkum. Óumdeilt er að samþykkt voru lög milli jóla og nýárs á framlengdu þingi að beiðni ríkisstjórnar um heimild til hennar til sölu á bönkunum, þ.e. eignarhlut ríkisins í þeim, einfaldlega vegna þess að frá þeirri sölu var gengið án formlegrar heimildar frá Alþingi. Þetta er því fullyrðing sem í mínum huga stenst ekki, en óþarft er í sjálfu sér að velta sér mikið upp úr henni. Þetta er búið og gert. Þetta er gjörð sem ekki verður tekin til baka. Eftir stendur að þessir bankar eru komnir í umsýslu annarra en ríkisins þannig að forræði mála er ekki lengur þar inni.

Í þessu sambandi vil ég halda áfram þeim orðaskiptum sem áttu sér líka stað áðan um skilanefndir bankanna. Ég held að það sé ástæða til að halda því á lofti að þegar Svíar lentu í sambærilegu áfalli og við seldu þeir eignarhlutina í þessum bönkum sem þeir yfirtóku smátt og smátt og „græddu“ á því stórfé, en hér er útleggingin þannig að við þessa sölu hafi ríkissjóður sparað sér 180 milljarða kr. Það kann vel að vera í þeirri stöðu sem var, en við vitum engu að síður ekkert hvaða kostnaður kann að koma yfir á ríkissjóð í framhaldi af því sem þetta starf nýju einkavæddu bankanna á eftir að leiða yfir þjóðina. Þar kem ég að þætti skilanefndanna.

Umræðan um það fyrirbæri sem skilanefndir eða slitanefndir bankanna eru er í dag í þjóðfélaginu öllu með þeim hætti að það er alveg með ólíkindum að þau mál skuli ekki hafa verið tekin til sérstakrar skoðunar. Þegar maður heyrir í fulltrúum atvinnulífs eða einstaklingum sem lenda í þeirri stöðu að sækja undir slita- eða skilanefndir hljóðnar umræðan venjulega, það dregur úr. Ég fullyrði úr þessum ræðustól að það er ákveðin hræðsla í þjóðfélaginu, úti í atvinnulífinu, úti í fjármálakerfinu, við þetta fyrirbæri sem skilanefndirnar eða slitanefndirnar eru. Sömuleiðis fullyrði ég að það er að myndast ný hálaunastétt í fjármálakerfi Íslands, þeir einstaklingar sem annaðhvort starfa í þessum skila- eða slitanefndum eða í umboði þeirra. Til þessa verks var ekki stofnað með það í huga.

Ég hvet fulltrúa ríkisstjórnarinnar hér, hv. formann Lilju Mósesdóttur og hv. varaformann Magnús Orra Schram í viðskiptanefnd, til að beita sér fyrir því að þetta dæmi verði stokkað upp með einhverjum hætti, þótt ekki væri nema að skipta út fulltrúum ríkisins í þessum skila- eða slitanefndum. Ekki endilega einu sinni öllum í einu, heldur bara koma inn nýju fólki með önnur viðhorf, aðra reynslu, aðra sýn, því að það starf sem þarna fer fram er þess eðlis í mínum huga og þangað komið í dag að það grefur undan trausti og skapar óþarfatortryggni út í það sem verið er að gera, fyrir utan þann skaða sem þetta hefur valdið og á eftir að valda atvinnurekstri í landinu.

Maður minnist ekki að ástæðulausu á traustið. Alls staðar í íslensku þjóðfélagi er gríðarlegt vantraust í dag og brýst út með einhverjum hætti í gremju og heift. Mælingar á trausti til Alþingis sýna að það er gríðarlega lítið og hefur hrakað mjög. Hverjir skyldu svo koma þar á eftir? Jú, það eru fjármálastofnanir landsins og lífeyrissjóðir. Eru þetta þeir þættir sem mega við slíku vantrausti sem þessar mælingar sýna? Nei, það er ekki nokkur einasta ástæða til að vinna þannig með málin að þetta þurfi að vera svona. Til þess að komast út úr þessum veruleika verða menn að taka á þeim þáttum sem illa er komið fyrir. Það er ástæðulaust að gera lítið úr þeirri gagnrýni sem hér hefur legið fyrir, það ber vissulega að fagna þeim skrefum sem stigin eru en ég hvet hv. viðskiptanefnd og fulltrúa meiri hluta flokkanna þar inni til að taka tillit til þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið og taka stærri skref en hér um ræðir.

Í þessu sambandi vil ég nefna líka að það sem stakk mig mest við þá tiltölulega litlu og grunnu þekkingu sem ég hef á þessu frumvarpi — ég skal fyrstur manna játa að þekking mín liggur í því að hlýða á þær umræður sem hér hafa átt sér stað í dag. Ég tók ekki með neinum hætti þátt í frumvarpssmíðinni — var þegar það var tiltekið hér að ekkert hefði verið rætt um innstæðutryggingarkerfið. Þess er m.a. getið í áliti minni hluta viðskiptanefndar. Maður spyr sig hvort löggjöfin um íslenska bankakerfið sé með þeim hætti enn þann dag í dag að við getum átt á hættu að þeir íslensku bankar sem hér standa enn þrír, eða fjármálastofnanir, geti átt möguleika á því að stofna til innlánsútibúa í öðrum löndum. Ef svo er — ég vona svo sannarlega að það sé ekki, en mér er sagt að svo sé — er þá uppi sú staða að við getum átt á hættu að lenda í sams konar forarpytti, leyfi ég mér að kalla það, sem Icesave-málið hefur reynst íslenskri þjóð, sem hefur alið á sundrungu, skapað óvissu og ótta og tortryggni? Þegar það leggst allt saman veldur það okkur til lengri tíma engu öðru en tjóni sem þjóð. Ég trúi því tæpast að það sé ætlan manna að ganga hér þannig frá að skilja þetta mál eftir opið.

Það kom fram við umræður í dag um frumvarpið að u.þ.b. ár leið frá því að menn byrjuðu að vinna með það þar til þetta frumvarp kom fram. Ég efast ekkert um góðan vilja fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna til að taka stærri skref, en það mun taka tíma. Þá spyr ég og hlýt að eiga sjálfsagða kröfu á að því verði svarað, annaðhvort í nefndinni og menn þar upplýstir um það eða úr ræðustóli, með hvaða hætti fulltrúar stjórnarflokkanna sjái sig tryggja ríkissjóð með einhverjum hætti gegn þeim skaða sem kann að leiða af því að við tökum ekki stærri skref en hér ber vitni um.

Þessi heildstæða endurskoðun sem allir óskuðu eftir og vonuðust eftir að yrði frágengin í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er ekki nógu fullkomin, hún er brotakennd, hún er ófullburða.

Það er illt að þurfa að sæta því og ég spyr líka hvað reki á eftir því að málið sé klárað nú, hvort menn geti ekki gefið sér þann tíma sem þarf til að taka á og ljúka þessari heildarendurskoðun. Oft er vitnað til þess að rannsóknarnefnd þingsins muni á grunni rannsóknarskýrslunnar koma með tillögur í framhaldinu sem taki á þeim þáttum sem út af standa. Ég fagna því og vænti þess að það verði bæði unnið af heiðarleika og góðum vilja og efast ekkert um það, alls ekki. Hættan liggur hins vegar í þeim skaða sem unninn verður og kann að verða unninn í því umhverfi með þeim tækifærum til verka sem fjármálastofnanirnar hafa til athafna í dag.

Því hef ég svona miklar áhyggjur af þessu? Jú, einfaldlega af þeirri augljósu staðreynd að ríkissjóður, eins og fyrir honum er komið í dag, er ekki til neinna átaka. Það er langur vegur frá. Við erum að reka ríkissjóð sem hefur tekjur á bilinu 380–400 milljarða kr. á ári með 100 milljarða kr. halla sem við ætlum að ná niður á tveimur árum. Inni í þessum halla eru 100 milljarðar kr. í vexti þannig að skuldbindingar og aðgerðir sem ríkissjóður getur tekið á sig eru ekki neinar í mínum huga. Þvert á móti er staða okkar með þeim hætti að allir kalla á að ríkissjóðurinn komi til hjálpar hér og þar en hann hefur enga burði til þess meðan við höfum ekki náð tökum á honum eins og hann liggur.

Á þessum sama tíma fikra menn sig inn í ýmsa þætti sem leiða til aukinna útgjalda. Við horfum upp á að það er verið að skjóta fram hjá ríkisreikningnum, út úr rekstrarreikningi ríkisins, stórum framkvæmdum. Ef maður leggur saman þau áform og þau verkefni sem raunar eru orðin að veruleika nú þegar erum við komin í vel á annað hundrað milljarða í útgjöld sem telja ekki enn þá inn í þann hallarekstur sem við stöndum frammi fyrir í dag. Ég óttast að við séum að taka á þeim vanda með sama hætti og við tökum á löggjöfinni um fjármálakerfið, þ.e. að við beitum ekki þeim meðulum og gefum okkur ekki þann tíma sem til þarf til að vanda það nægilega vel til verka að við náum að dekka alla þá þætti sem við viljum breyta. Þegar maður fær fréttir af því að unnið sé að gerð fjárlaga með því að horfa til þess að almenn hagræðingarkrafa verði gerð til hinna ýmsu ráðuneyta og þeim ætlað að saxa upp í hallakröfuna, 50 milljarðana fyrir árið 2011, vitum við að augljóslega næst ekki sá árangur sem við þurfum að ná. Það má yfirfæra á þetta frumvarp, með því næst ekki sá árangur sem við viljum stefna að.

Allt að einu liggur hér fyrir að menn telja það alls ekki nægilega stór skref og mikil sem tekin eru en fagna þeim stuttu, ágætu, jákvæðu skrefum sem tekin eru. Gagnrýnisatriðin sem hér standa sérstaklega upp úr eru þau sem m.a. lúta að rekstrarákvörðun Fjármálaeftirlitsins sem fær til stórra muna auknar heimildir og er beinlínis ætlað að ganga inn í og taka til verka með þeim hætti sem stjórnir viðkomandi fyrirtækja í öllum eðlilegum þjóðfélögum annast. Sömuleiðis er forðast að taka á verkaskiptingu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Í mínum huga stendur líka eftir sú stóra spurning sem snertir bæði störf skilanefndanna og þessa umræðu og spurningar um eigendur bankanna nýju, þau atriði sem lúta að hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtækjum.

Við vitum að skuldabréf í þessum bönkum ganga kaupum og sölum og inn í þessa banka. Svo segja alltént sögur. Við vitum ekki betur, en sögur segja að vogunarsjóðir eigi þarna stóra hluti og þá er ekkert óeðlilegt að menn spyrni aðeins við fótum. Það vita allir sem vilja vita hver þáttur þeirra fjármálastofnana, vogunarsjóðanna, var í því ástandi sem skapaðist hér haustið 2008 og raunar fyrr. Ef þessir sömu aðilar eru komnir í þá stöðu núna að hafa áhrif á starfsemi þessara nýju íslensku banka eru vogunarsjóðirnir, ef ég nefni þá sérstaklega, komnir í þá stöðu að halda utan um allt íslenskt atvinnulíf og mergsjúga það. Verkefni þeirra er það eitt að græða sem mesta peninga. Skítt og lagó með þjóðfélagið sem þeir starfa í. Svo færa þeir sig þegar þeir sjá ekki nægilega mikið blóð eftir til að sjúga út úr lífæðum kerfisins. Þannig liggur þessi umræða og henni þarf Alþingi að svara með einhverjum ákveðnum hætti.

Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er greinilega ekki gengið nægilega langt. Meðan það nær ekki þeim markmiðum að sefa þessa umræðu er verkið ekki nægilega vel unnið.