138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. menntmn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég skil ákaflega vel vangaveltur sveitarstjórnarmanna um hvernig sé hægt að spara við rekstur grunnskóla. Haustið 2009 fengum við til nefndarinnar fulltrúa frá sveitarfélögunum, reyndar frá Kennarasambandinu líka, til þess að ræða þennan möguleika og þá var einmitt verið að ræða starfstímann. Í ljós kom að ekki voru öll sveitarfélög á því að fara þá leið að fækka dögum.

Þegar ég fékk tækifæri til í fjárlaganefndinni, þegar fulltrúar frá sveitarfélögunum komu þangað í heimsókn, spurði ég að því hvort þetta væri aðgerð sem þeim þóknaðist og voru um það mismunandi skoðanir. Nú má vera að það hafi breyst þannig að þessa hluti þarf alla að skoða.

Ástæðan fyrir því að ekki er núningur við Kennarasambandið varðandi breytingarnar á framhaldsskólalögunum er væntanlega sú að í dag er miðað við 175 daga þannig að breytingin var ekki komin til framkvæmda, en í grunnskólunum var breytingin komin til framkvæmda áður en lögin 2008 voru samþykkt. Sveitarfélögin höfðu sjálf borgað aukadaga þannig að 180 dagar voru í grunnskólunum áður en lögin voru samþykkt þannig að til þess að breyta því þarf að fara í kjarasamninga kennara. Þess vegna er þetta erfiðara í grunnskólunum en í framhaldsskólunum.

Auðvitað er mikilvægt þegar kreppir að, hvort sem er hjá ríki eða sveitarfélögum, að haga hagræðingaraðgerðunum út frá sjónarmiði nemendanna og reyna síðan að fá fagmennina í skólunum til þess að fallast á bestu lausnina fyrir skjólstæðinga sína.

Varðandi ytra eftirlit líst mér ekki illa á það sem hv. þingmaður nefndi. Í rauninni er ég þeirrar skoðunar að það eigi að auka ytra eftirlit og ríkið eigi að leggja meira í eftirlit með menntastofnunum, hvort sem það eru grunnskólar eða framhaldsskólar. Sjálfsmat er lögbundið og er ágætt upp að vissu marki en ég er fylgjandi því að eftirlitið verði markvissara og að það verði aukið.