138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

efling græna hagkerfisins.

520. mál
[13:06]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um þingsályktunartillögu sem fjallar um það að Alþingi skipi þverpólitíska nefnd sem taki að sér það verkefni að greina hvernig við getum fjölgað umhverfisvænum störfum í þessu landi. Með þessari tillögu er líka verið að styrkja stefnumótunarhlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Í stað þess að vísa þessu verkefni til framkvæmdarvaldsins felur hún í sér að allir þingflokkar taki höndum saman, tilnefni fulltrúa úr sínum röðum sem takist sameiginlega á hendur það verkefni að móta stefnu til framtíðar um það hvernig við getum aukið fjölbreytnina í atvinnusköpun okkar með vistvænum áherslum og hvaða breytingar þurfi að gera á lögum og opinbera stoðkerfinu við atvinnulífið til þess að fjölga hér grænum störfum.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka fyrir þann stuðning sem tillagan hefur fengið úr öllum þingflokkum. Ég tel að við fáum hér tækifæri til að sýna hverju við getum áorkað þegar við störfum saman þvert á flokka. (Gripið fram í: Heyr.)