138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:14]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Alþingi er ekki alls varnað þegar það brettir upp ermarnar eins og kemur fram í þróun þessa mikilvæga máls. Í upphafi var það tekið út úr nefndinni eingöngu með stuðningi stjórnarliða og mætti talsvert mikilli andstöðu. Nefndin hefur unnið gríðarlega gott starf síðustu tvo daga og ég vil þakka nefndarmönnum og formanni nefndarinnar sérstaklega fyrir áframhald á þeirri góðu vinnu sem hafði átt sér stað í nefndinni á sínum tíma um málið. Það er erfitt að undirbúa gerð nýrrar stjórnarskrár því að hver og einn sem kemur að því og hefur einhverja ábyrgðarstöðu hvað það varðar finnur fyrir hræðslu um að nú verði kannski búin til vond stjórnarskrá. Það er búið að taka lokið af pottinum og menn stíga mjög varlega til jarðar þegar farið er af stað út í svona hluti. Það er gott og menn hafa stigið mjög varlega til jarðar í þessu máli, en náð niðurstöðu sem mér finnst vel ásættanleg. Ferlið er ekki einfalt, en það mun ná að fá fram, að mér sýnist, öll þau sjónarmið sem þörf er á og skila af sér niðurstöðu með góðum hætti.

Mér hefur alla tíð hugnast hugmyndin um stóran þjóðfund. Við sem vorum að hugsa um nýja stjórnarskrá fyrir svolítið löngu síðan komum alltaf aftur að þessum spurningum: Hver á að gera nýja stjórnarskrá? Hvern mundirðu velja? Við sátum á fundum og nefndum fimm nöfn og þau voru skotin í kaf. Þá kom einhver annar með fimm nöfn og þau voru skotin í kaf. Það náðist aldrei samkomulag um hverjir þetta ættu að vera. Á endanum var niðurstaða okkar sú að skynsamlegast væri að velja bara þverskurð þjóðarinnar með slembiúrtaki úr þjóðskrá og láta hana semja drög að nýrri stjórnarskrá.

Hér er verið að kalla eftir hugmyndum með sama þjóðfundarfyrirkomulagi. Síðan verða þær hugmyndir teknar og hnoðaðar saman í einhvers konar plagg. Þjóðfundur er aðferð til þess að fá upplýsingar hjá fólki um það hvernig það hugsar sér Ísland og stjórnarskrá Íslands. Ég veit ekki hvort það fyrirkomulag á fundarstjórninni sem var á síðasta þjóðfundi henti vel í svona vinnu. Það er á færi þessarar nefndar og sérfræðinga í fundarstjórn að finna út hvaða fyrirkomulag er heppilegast. Fjöldi fólksins er fínn og mér líst vel á þetta. Ég hlakka til að sjá ferlið fara af stað.

Ég ætla ekki að vera langorður. Það síðasta sem mig langaði að tæpa á, og ég tel vera mjög mikilvægt, er að stjórnlagaþingið sjálft mun ákveða hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla um nýju stjórnarskrána verður. Ég hef lagt mikla áherslu á að það sé skýrt að vilji þjóðarinnar komi í ljós áður en Alþingi fær hana til meðferðar því að Alþingi er alltaf lokastöðin í málinu. Stjórnlagaþingið ræður því héðan í frá. Það er gott.

Grundvallaratriði í því máli hins vegar er náttúrlega að hægt verði að greiða atkvæði um einstakar greinar eða samhangandi greinar stjórnarskrárinnar. Ef stjórnlagaþingið ákveður það verð ég hæstánægður. Sú kvöð sem er í stjórnarskrá okkar í dag um að þjóðin segi annað hvort já eða nei kemur frá árdögum þegar konungar afhentu þjóð sinni nýja stjórnarskrá og sögðu: Þið getið tekið þetta plagg og sagt annað hvort já eða nei. Þar með er fólki stillt upp við vegg og því settir afarkostir. Það er einfaldlega svoleiðis að í öllum stjórnarskrám eru, eins og í öllum þeim lögum sem við búum til á Alþingi, mýmörg atriði sem menn hafa mismunandi skoðanir á. Alþingi sjálfu mundi aldrei detta í hug að leiða í lög að Alþingi greiddi eingöngu atkvæði um frumvörp í heild sinni. Það er fráleit hugmynd í lýðræðisríkjum nútímans. Ég tel það í rauninni fráleita hugmynd hvað varðar stjórnarskrána.

Það mun koma í ljós og vonandi sjá menn þegar þeir hugsa málið að stuðningur og vilji almennings við stjórnarskrárgerð skiptir meira máli en kannski allt annað í ferlinu.

Ég fagna því að málið er komið á góðan rekspöl. Við náum vonandi að klára það með einum eða öðrum hætti að miklu leyti í kvöld, kannski á morgun. Ég þakka aftur fyrir vinnu nefndarmanna í málinu.