138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:47]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi dómur gefur ekki tilefni til þess að fara yfir lögmæti þess hvernig fyrirkomulagi er háttað gagnvart sambandi launþega gagnvart stéttarfélögum sínum.

Hins vegar er alveg ljóst að þetta fyrirkomulag er hluti af arfi sem þessi ríkisstjórn fékk, þ.e. hluti af stjórnsýslu þar sem framkvæmd laga hafði ekki verið eðlileg. Þetta er eitt af mörgum atriðum, örugglega hundrað atriðum, sem þessi ríkisstjórn þarf að fara í gegnum. Hún þarf að fínkemba öll lög, allar reglugerðir og alla stjórnsýslu íslenska ríkisins og fara yfir það með hvaða hætti hér er starfað. Við þurfum að gera það með gagnrýnum augum og það er það sem við munum gera í kjölfarið á þessum dómi alveg eins og alltaf stóð til, fínkemba lög, reglugerðir og starfshætti Stjórnarráðsins og starfshætti ríkisins til þess að við getum starfað með sem bestum árangri í íslenskri stjórnsýslu.