138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[17:17]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta andsvar. Það er ljóst að í umræðunni hefur verið um misskilning að ræða. Ég fór ekki í ræðustól til að tala um fundarstjórn forseta, heldur kvaddi mér hljóðs. Ég hef þar af leiðandi misskilið samhengið og þakka hæstv. ráðherra fyrir að leiðrétta þennan leiða misskilning. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, umræðan hefur verið mjög góð. Svo kemur hæstv. ráðherra hér upp og brosir að leikjum eða ræðuforminu um fundarstjórn forseta. Hæstv. ráðherra er þeim leik þaulkunnugur eftir áralanga setu í stjórnarandstöðu. Ég minnist þess þegar hv. þingmaður kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta. Þá voru fáir þingmenn liprari í því umræðuformi en hæstv. ráðherra. Ef stjórnarandstaðan í dag vildi læra betur á þetta ágæta tæki sem stjórnarandstaðan getur haft í umdeildum málum ættum við að fletta upp á gömlum ræðum á vef Alþingis, svona gömlum smellum sem hæstv. ráðherra átti sem stjórnarandstæðingur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það var mikil hernaðarlist sem einkenndi málflutning hæstv. ráðherra, eða þáverandi hv. þingmanns, sem margir geta lært af.