138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

hafnalög.

525. mál
[17:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er lokaumræða um breytingar á hafnalögum og mig langar að fara efnislega yfir þá umræðu sem átti sér stað í nefndinni þegar farið var yfir þessa hluti.

Tilgangur breytinganna er fyrst og fremst að setja styrkari lagastoð og skýra hana hvað varðar töku aflagjalds. Það sem valið stendur um að gera í þessu tilfelli, virðulegi forseti, er annars vegar að hafa það fyrirkomulag sem tíðkast hefur í mjög langan tíma, þ.e. að aflagjaldið sé greitt af aflaverðmæti, og við í nefndinni erum nánast að staðfesta með þeim breytingartillögum sem við leggjum til í frumvarpinu, eða hins vegar að gjaldið sé miðað við aflamagn.

Í nefndinni komu fram misjöfn sjónarmið frá þeim sem komu þar fyrir og það var bent á augljósan ágalla sem núverandi fyrirkomulagi fylgir og við verðum að gera okkur grein fyrir. Hann er sá að ef miðað er við aflaverðmæti afla er í raun og veru verið að mismuna mönnum eftir því hvort þeir landa verðmætum fiski eða ekki verðmætum. Ég get tekið sem dæmi að ef menn landa t.d. þorski fyrir 200–300 kr. kílóið annars vegar eða ufsa sem er kannski helmingi lægri að verðmæti hins vegar borga þeir helmingi meira aflagjald af dýrari tegundinni þótt tonnafjöldinn sem menn landa sé hinn sami. Þetta fyrirkomulag hefur tíðkast lengi og sumir hafa gagnrýnt það. Hin leiðin væri að flytja þetta yfir á aflamagn, þ.e. miða við tonnafjölda eða kílóafjölda. Á því eru einnig kostir og gallar og þeir felast fyrst og fremst í því að þá mundu menn oft og tíðum greiða hugsanlega hátt gjald af þeim afla sem hefði lítið aflaverðmæti.

Þetta voru þeir möguleikar sem hv. samgöngunefnd stóð frammi fyrir. Við sameinuðumst öll um að fara þá leið sem lögð er til hér. Við sem vorum viðstödd þegar málið var afgreitt út úr nefndinni stóðum öll að þessu nefndaráliti og sameinuðumst um að miða áfram við það fyrirkomulag sem hefur verið. Það voru reyndar líka settar inn í lögin breytingartillögur frá nefndinni um hámarksgjald og lágmarksgjald til þess að koma skikk á hlutina. Lágmarksgjaldið er hugsað til þess að stórar, sterkar hafnir geti ekki niðurgreitt þessi gjöld gagnvart öðrum minni höfnum. Þetta væru þá hugsanlega hafnir þar sem væri mjög mikill innflutningur eða þar væri stóriðja sem hugsanlega væri bæði með aðföng og útflutning sem mundi gera að verkum að sú höfn væri fjárhagslega sterkari og gæti boðið lægra gjald en höfn sem hefði ekki þessa stóru, traustu tekjupósta. Í þessu tilfelli er lagt til að lágmarksgjaldið verði 1,25% og hámarksgjaldið 3%.

Til viðbótar var sett inn, virðulegi forseti, að aflagjald mætti ekki vera lægra en 0,7% af heildaraflaverðmæti frystra afurða eða unninna afurða. Þá er komið til móts við þá venju í dag að menn taka mun lægri gjöld fyrir frystar afurðir, það er vinnuregla hjá höfnunum að tekinn sé u.þ.b. helmingurinn af því sem menn taka yfirleitt.

Virðulegi forseti. Í samgöngunefnd var mikil samstaða um frumvarpið og markmiðið með því er fyrst og fremst að setja skýrari og sterkari lagastoð fyrir töku aflagjalds, því menn hafa efast um að lagastoðin fyrir gjaldtökunni væri nógu skýr. Í ljósi málsins sem var verið að enda við að ræða hér, þ.e. iðnaðarmálagjald, þar sem menn fengu einmitt á sig dóm, þá er verið að fyrirbyggja slíkt hér. Það er þá alveg skýrt og klárt í lögunum að höfnunum er heimilt að innheimta aflagjaldið og nýta það til reksturs hafnanna. Það var líka mikil umræða um það í nefndinni að þetta væri ekki beinlínis skattur heldur þjónustugjald. Það er sett inn í nefndarálitið og hnykkt á því að þetta sé fyrst og fremst hugsað til að greiða fyrir þá þjónustu og umsýslu sem á að vera í höfnunum.

Að endingu vil ég nefna það, virðulegi forseti, að meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu um að ákvæði til bráðabirgða um framkvæmdastyrki til hafna verði framlengt um tvö ár. Ég tel mjög mikilvægt að því máli hafi verið lent á þessum tímapunkti.