138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

671. mál
[11:40]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá félags- og tryggingamálanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Frumvarp það sem hér um ræðir lagði nefndin m.a. fram til samræmis við frumvarp nefndarinnar um greiðsluaðlögun einstaklinga og hafði þá þegar tekið ákvörðun um að fela réttarfarsnefnd yfirferð frumvarpsins og halda að því loknu áfram vinnu við nánari útfærslu þess. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið Markús Sigurbjörnsson formann réttarfarsnefndar á sinn fund og þökkum við honum fyrir mjög svo gagnlegar og góðar ábendingar.

Í frumvarpinu er lagt til að felld verði brott vísan til þess að um tímabundið úrræði sé að ræða þar sem lögunum er ekki ætlað að gilda tímabundið. Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna væri í reynd tímabundið úrræði. Með því væri sett fram nýtt viðmið um fjárhæð afborgana af skuldbindingum sem tryggðar eru með veði í íbúðarhúsnæði og því viðmiði væri einungis ætlað að gilda um ákveðinn tíma en ekki til frambúðar. Var til samanburðar bent á það einkenni greiðsluaðlögunar skv. X. kafla a laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., að með því úrræði væri stefnt að því að leysa úr greiðsluerfiðleikum einstaklinga á raunhæfan hátt til framtíðar og væri þar með ekki litið á það úrræði sem tímabundið. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur því til breytingar þessu til samræmis.

Þá kom fram á fundi nefndarinnar gagnrýni á styttingu á hámarkstíma greiðsluaðlögunar í þrjú ár úr fimm. Fram kom að dómstólar hefðu úrskurðað um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna til allt að fimm ára þó svo að dæmi væru þess að úrræðinu hefði einnig verið veittur skemmri gildistími. Var sérstaklega nefnt að stytting greiðsluaðlögunartímabils kynni að koma hart niður á skuldurum enda væri tímalengd úrræðisins m.a. ætlað að gera einstaklingum fært að endurskipuleggja fjármál sín á raunhæfan hátt með það að markmiði að þeir gætu áfram búið í fasteign sinni. Nefndin leggur því til breytingu þessu til samræmis en áréttar að ekki er kveðið á um lágmarkstímabil greiðsluaðlögunar heldur einungis hámark og því sé mögulegt að ákvarða tímalengd eftir aðstæðum hverju sinni.

Í framkvæmd hafa komið fram álitamál er varða kröfur sem tryggðar eru með tryggingarbréfi með svokölluðu allsherjarveði. Hafa þær hvorki fallið undir tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna né greiðsluaðlögun samningskrafna og því oft gert það að verkum að gjaldþrot blasir við skuldara með tilheyrandi eignamissi. Var á það bent að sjálfstæð greiðsluskylda felist ekki í tryggingarbréfum heldur vísi þau til annarra heimildaskjala um þær skuldbindingar sem þeim er ætlað að tryggja. Væri veðhafa samkvæmt tryggingarbréfi fært að veðtryggja allar kröfur er hann eignast á hendur skuldara með því að fullnýta hverju sinni þá hámarksfjárhæð sem tilgreind er í tryggingarbréfi og nyti hann að því leyti ávallt betri stöðu en aðrir kröfuhafar. Nefndin telur nauðsynlegt að komið verði í veg fyrir að framangreind álitamál hefti framgang markmiða laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og leggur til breytingar sem skerpa ákvæði frumvarpsins hvað þetta varðar.

Því sjónarmiði var jafnframt komið á framfæri við nefndina að það kynni að flækja málsmeðferðina að fela umboðsmanni skuldara það verkefni að taka á móti umsóknum um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og leggja mat á hvort slík heimild skuli veitt. Sé greiðsluaðlögunarinnar leitað í samræmi við 18.–20. gr. frumvarps til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er hlutverk og valdsvið umboðsmanns skuldara skýrt afmarkað. Er það mat nefndarinnar að eðlilegt sé að þeim einstaklingum er vilja beiðast greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna án þess að láta reyna á greiðsluaðlögun einstaklinga eigi að vera heimilt að leggja slíka beiðni beint fyrir dómstóla enda er þegar komin nokkur reynsla á það fyrirkomulag. Leggur nefndin til breytingar þessu til samræmis.

Rætt var sérstaklega um hvert væri heppilegt varnarþing einstaklinga er beiðast greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Var á það bent að þar sem í frumvarpinu væri gert ráð fyrir því að víkja frá lögheimilisskilyrði laganna væri nauðsynlegt að taka upp önnur viðmið hvað varðar varnarþing skuldara. Til einföldunar og samræmingar gerir nefndin þá tillögu að ávallt skuli leggja fram beiðni um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna í því umdæmi héraðsdóms þar sem fasteign er staðsett.

Innheimtumöguleikar sveitarfélaga og húsfélaga voru sérstaklega ræddir á fundum nefndarinnar þar sem gjaldfallin fasteignagjöld og húsgjöld njóta lögveðsréttar. Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að með því að skerða rétt framangreindra félaga til að krefjast nauðungarsölu á fasteignum væru innheimtumöguleikar þeirra takmarkaðir langt umfram það sem eðlilegt og réttmætt getur talist. Nefndin telur rétt að bregðast við þeim athugasemdum en áréttar að í frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun eigi að gera ráð fyrir þessum útgjöldum skuldara. Leggur nefndin því til breytingar á þessu.

Fyrir nefndinni kom fram að beiðendum greiðsluaðlögunar væri oft og tíðum gert að mæta fyrir dómara og svara þar spurningum er vakna kynnu varðandi beiðni þeirra um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. Lagði nefndin því til í frumvarpi sínu breytingu þess efnis að skuldari gæti óskað þess að umsjónarmaður væri viðstaddur fyrirtöku máls fyrir dómi. Réttarfarsnefnd benti á að umsjónarmanni greiðsluaðlögunar bæri að viðhalda ákveðnu hlutleysi í samskiptum sínum við skuldara og kröfuhafa. Hann fer t.d. með víðtækt mat á aðstæðum kröfuhafa og skuldara meðan á umleitunum stendur. Einnig var nefnt að krafa um hlutleysi umsjónarmanns væri sett fram í því augnamiði að kröfuhafar bæru til hans traust enda væri slíkt nauðsynleg forsenda eðlilegs gangs umleitana. Fram kom að þetta gæti leitt til þess að umsjónarmanni væri í raun ófært að gæta hagsmuna skuldara fyrir dómi. Nefndin leggur til breytingar þessu til samræmis enda mikilvægt að umsjónarmaður geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Loks kom fram fyrir nefndinni að eðlilegt væri að ráðast í nokkrar orðalagsbreytingar í þeim tilgangi að einfalda framkvæmd samkvæmt ákvæðum frumvarpsins auk þess sem nauðsynlegt væri að lagasamræmis yrði gætt. Þá var lagt til að brott yrðu felld nokkur ákvæði er fælu í sér tvítekningu þegar litið væri til heildarsamræmis frumvarpa og laga er varða greiðsluerfiðleikaúrræði einstaklinga. Nefndin leggur til ýmsar breytingar til leiðréttingar og skýringar á texta sem ég ætla ekki að gera frekari grein fyrir hér heldur vísa í breytingartillögur.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir nefndarálitið skrifa auk þeirrar sem hér stendur Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Pétur H. Blöndal, Ásmundur Einar Daðason og Ögmundur Jónasson.