138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Við ræðum í dag störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Í raun segir það allt sem segja þarf um störf þessarar ríkisstjórnar að hún skuli ekki hafa treyst sér til að láta sjá sig aftur í þinginu óbreytta. Í óðagoti var reynt að setja saman nýja ríkisstjórn eða nýja uppröðun í stjórnina til að sumir ráðherrar þyrftu ekki að mæta hér og svara fyrir það sem þeir hafa gert undanfarnar vikur og mánuði og til að sumir ráðherrar kæmust í skjól í nýjum ráðuneytum. Engu að síður er ástæða til að óska þeim sem hafa tekið sæti í ríkisstjórninni nú til hamingju með það og óska þeim velfarnaðar í starfi. Guðbjartur Hannesson fær ákaflega stórt hlutverk og gott að hann skuli vera kominn með reynslu af fjárlagagerð því að hjá ráðuneyti hans verður megnið af útgjöldum ríkisins. Vonandi að þar takist vel til. Eins er, má segja, fagnaðarefni að Ögmundur Jónasson skuli aftur vera kominn í ríkisstjórnina og maður vonar að það aðhald sem hefur komið úr þeirri átt breytist í engu þótt hann sé sestur á nýjan stað í salnum.

Hins vegar veltir maður því fyrir sér hvers vegna hæstv. dómsmálaráðherra Ragna Árnadóttir var látin víkja úr stjórn. Hafði hún ekki staðið sig sem skyldi? Og hvar er Kristján Möller? Kristján Möller er líklega eini ráðherrann sem hefur verið í einhverjum samskiptum út á við, t.d. við atvinnurekendur sem sakna hans nú sárt og sjá ástæðu til að mótmæla því sérstaklega að honum sé vikið úr ríkisstjórn. En svona er það, eitt tengist öðru í pólitíkinni og vandræðagangur viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra o.fl. hefur nú orðið til þess að Kristján Möller fær ekki að opna Héðinsfjarðargöngin. [Hlátur í þingsal.] Þannig tengist eitt öðru en að öllu gríni slepptu er það (Gripið fram í: Þau verða að opna …) [Hlátur í þingsal.] verulegt áhyggjuefni að sú ríkisstjórn sem hefur verið að störfum í sumar og við höfum fylgst með vandræðagangi hjá dag eftir dag skuli hafa farið þannig með vald sitt að hún treysti sér ekki til að mæta til þings og verja gerðir sínar.

Það er engu að síður ástæða til að ræða það sem hefur verið að gerast í samfélaginu á vakt þessarar ríkisstjórnar undanfarna mánuði og raunar frá því að hún tók við völdum. Þó að maður hafi verið farinn að vona að nú, næstum því tveimur árum eftir efnahagshrunið, gætu núverandi valdhafar litið til framtíðar og talað út frá framtíðarsýn sinni eða um stöðu sína út frá því sem þeir hafa gert, þá virðist hæstv. forsætisráðherra enn þá vera algerlega föst í fortíðinni. Ef hæstv. forsætisráðherra ætlar að dvelja þar áfram er ekki hægt annað en að taka þá umræðu almennilega því að hæstv. forsætisráðherra leyfir sér eina ferðina enn að koma og tala með þeim hætti að hún virðist ekki muna eftir því að hafa setið í ríkisstjórn 2007 til 2009, í ríkisstjórninni sem sat þegar hrunið varð, í ríkisstjórninni sem sat þegar mistök voru gerð á hverjum einasta degi, eins og kemur reyndar ágætlega fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem kom, held ég að mér sé óhætt að segja, hæstv. forsætisráðherra og þingmönnum Samfylkingarinnar illilega á óvart vegna þess að þau voru farin að trúa eigin áróðri. Þau voru farin að trúa því að þau hefðu hvergi komið að málum en allt í einu birtust þarna níu bindi þar sem það var skjalfest að líklega hefði Samfylkingin átt meiri þátt í því hvernig fór hér en nokkur annar flokkur, ef menn ætla að skilgreina það þannig. Enda var Samfylkingin sá flokkur sem hvað mest klappaði fyrir útrásinni, sá flokkur sem lét setja inn í stjórnarsáttmála þegar hann fór í stjórn með Sjálfstæðisflokki 2007 að það mætti ekkert gera til að hefta útrásina. Samfylkingin óttaðist að meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn, frjálshyggjuflokkurinn, mundi reyna að draga eitthvað úr útrásinni umfram það sem Samfylkingin taldi við hæfi. Og hver man eftir því að Samfylkingin sagði aftur og aftur og aftur, ár eftir ár eftir ár að útrásin og öll sú dásemd sem henni fylgdi væri ekki þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að þakka. Nei, þetta var allt EES-samningurinn og hafði ekkert með valdhafana að gera. En nú allt í einu kannast menn ekki við það og kannast alls ekki við árin sín í ríkisstjórn, þar sem hæstv. núverandi forsætisráðherra lét meira að segja setja sig í sérstakt efnahagsráð ríkisstjórnarinnar til að geta haft puttana í málunum með þeim árangri sem við sáum svo fyrir tveimur árum síðan.

Væri ekki ráð, í stað þess að reyna að endurskrifa söguna, að snúa sér að framtíðinni? Væri ekki ráð fyrir þessa ríkisstjórn að fara að veita einhverja framtíðarsýn sem menn gætu haft trú á og fjárfest í? Þó að hér sé talað mikið um uppgang í efnahagsmálum þá minnir sú umræða fyrst og fremst á þá tækni sem var notuð í Sovétríkjunum á sínum tíma, tölfræðileiki sem réttlættu hlutina þrátt fyrir að hverjum manni mætti vera ljóst, bara með því að ganga um göturnar eða hitta fólk í kaffi, að ástandið væri allt annað heldur en hinar uppstokkuðu tölur áttu að gefa til kynna. Þannig leyfir t.d. hæstv. forsætisráðherra sér að halda því fram að megnið af bættri stöðu ríkissjóðs, eins og hún kallaði það, væri til komið með samdrætti, með niðurskurði, með sparnaði, réttara sagt, og einungis tuttugu og eitthvað prósent með útgjöldum, með gjaldtöku. Hvernig kemur þetta heim og saman við það sem fulltrúar atvinnulífsins, vinnuveitenda og launþega, segja? Hvers vegna dó stöðugleikasáttmálinn svokallaði drottni sínum? Það var m.a. vegna þess að ríkisstjórnin stóð engan veginn við það að ráðast í þær sparnaðaraðgerðir sem til höfðu staðið en byggði hins vegar fyrst og fremst á skattahækkunum og ætlar að halda áfram á þeirri braut. Þegar kemur að skattahækkunum ætlar hæstv. fjármálaráðherra þó að standa við það loforð sem hann gaf þegar hann sagði: „You ain't seen nothing yet“. Enn á að ráðast í skattahækkanir í haust, á sama tíma og ríki allt í kringum okkur sem eiga í efnahagslegum erfiðleikum eru að fara í þveröfuga átt og auka umsvif hagkerfisins, auka fjárfestingu, skapa þær aðstæður að verðmætasköpunin verði meiri og þá verði meira til að skattleggja. Hér er farið í þveröfuga átt, það er samdráttur á öllum vígstöðvum.

Hvers vegna hafa menn komist upp með þetta til þessa? Jú, meðal annars vegna þess að ríkisstjórninni hefur verið forðað frá því að gera mistök sem hefðu verið svo stórkostleg að jafnvel frammistaða Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni 2007–2009 bliknar í samanburði. Þessi ríkisstjórn ætlaði nefnilega að velta hundruðum milljarða af skuldum einkafyrirtækis yfir á íslenska skattgreiðendur. Hvernig væri staðan í dag ef það hefði tekist? Nú talar ríkisstjórnin um að erfiðar aðgerðir séu fram undan, erfiður vetur. Það stendur til að ráðast í verulegan niðurskurð og verulegar skattahækkanir. Niðurskurðurinn á að skila 30 milljarða kr. sparnaði og skattahækkanirnar 10 eða 11 milljörðum, samtals um 40 milljörðum. Þetta er einmitt sama upphæð og hefði farið í að borga bara vexti af Icesave á þessu ári ef ríkisstjórnin hefði fengið sínu framgengt og allar skattahækkanir og allur niðurskurður ríkisstjórnarinnar til þessa gerir ekki meira en að eiga fyrir þessum vaxtagreiðslum ef til þeirra hefði komið. Raunar er þetta ekki alveg sanngjarn samanburður því sparnaðurinn er má segja a.m.k. tvöfalt meiri. Þær vaxtagreiðslur sem stóð til að greiða út úr landinu í erlendri mynt hefðu ekki skapað þau margföldunaráhrif sem fjármunirnir gera þegar þeir haldast í hagkerfinu svo að sparnaðurinn vegna Icesave tvöfaldar líklega allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

En það sem er kannski enn þá verra er að menn skuli ekki nýta tækifærin því að tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Hér er í heimsókn utanríkisráðherra Indlands og við í utanríkismálanefnd áttum fund með honum í morgun og hann, eins og svo margir erlendir gestir, getur ekki annað en undrast það hversu mörg tækifæri eru til staðar þrátt fyrir allt. Svo undrast menn auðvitað líka að tækifærin skuli ekki vera nýtt. Hverjar eru t.d. aðstæður hér í atvinnumálum? Hversu mörg tækifæri eru til staðar? Því geta t.d. fulltrúar ríkisstjórnarinnar í iðnaðarnefnd svarað, þar hafa tugir fjárfestingarkosta verið kynntir en allir stoppaðir, hver og einn einasti, vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum og tilhneigingar Vinstri grænna til að koma í veg fyrir alla möguleika til að skapa störf. Svo segja menn: Þetta er ekkert vandamál því að landflóttinn er ekki eins mikill og við héldum og störfum er farið að fjölga. Nei, þeim er ekki farið að fjölga. Menn gleyma til að mynda að taka með í reikninginn að á hverjum einasta degi flytur ein fjölskylda til Noregs. Til annarra landa flytja svo fleiri, en bara til Noregs flytur nú ein fjölskylda daglega svo að störfum er að fækka. Það er verið að flytja þau úr landinu. En öll tækifæri eru hins vegar til staðar til að snúa þessari þróun við og eitt var ánægjulegt að heyra í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, hann talaði um mikilvægi samstarfs og samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu. Vonandi gerist það nú sem ekki hefur gerst til þessa að ríkisstjórnin meini það sem hún segir og við fáum að kynnast því að leitað verði til stjórnarandstöðunnar um samstarf og samvinnu við uppbyggingu Íslands.