138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:19]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Spurt er: Hvað er fram undan? Hvað skal segja um stöðuna í efnahags- og stjórnmálum eins og hún blasir nú við? Mér þykir verra að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli horfinn úr salnum vegna þess að ég ætla að víkja að ranglæti og misskiptingu í þjóðlífinu, arfleifð Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir ræðu hans hér áðan sem var nokkuð uppblásin held ég að áleitnar spurningar hljóti að leita á hann og samflokksmenn hans og aðra þá sem komu beint eða óbeint að stjórnartaumunum á liðnum árum. Þeir hljóta að spyrja sig: (Gripið fram í.) Hvernig gátum við látið þetta gerast? Verkefnið núna er að snúa af braut mismununar og óréttlætis. Að því hefur verið unnið síðustu missirin.

Ýmsum þykir hægt miða en enginn deilir um viljann til að breyta, vinda ofan af ranglátri lagasmíð og hugsunarhætti sem setur einkaeignarréttinn ofar mannréttindum og bindur hann við eign fremur en afleiðingar þess að skulda og leggur meira upp úr sparisjóðsinnstæðunni en lyfjaútgjöldum. Lagabreytingar sem þingið vann að síðastliðið vor og nú á haustdögum um réttarbætur fyrir skuldugt fólk eru skref í átt til réttlætis, skref, ekki ferðalok. Pendúllinn sem sveiflaðist til ýtrustu peningafrjálshyggju er byrjaður að leita jafnvægis á ný. Frekari réttarbætur verða lögfestar á komandi dögum. Allt eru þetta skref fram á við. Við reynum að hafa þau eins stór og frekast er kostur. Þótt löggjöfin skipti máli og aðgerðir ríkisstjórnar séu brýnar í smæstu atriðum er endurreisnin algerlega háð því að allur almenningur, þjóðin, finni réttlætisþráðinn í stefnumótun stjórnvalda; að fólki finnist og það finni að við, þing og ríkisstjórn, séum að gera okkar besta á réttlátan og heiðarlegan hátt. Hægt og bítandi er þjóðinni að takast að snúa skútunni upp í vindinn. Það er að gerast með sameiginlegu átaki almennings og stjórnvalda. Ég fullyrði að sá árangur sem er að nást innan opinbera geirans í sparnaði og aðhaldi er fyrst og fremst til orðinn vegna viljans sem er með þjóðinni að ná sameiginlega tökum á erfiðleikum sem aðrir skópu en hinn almenni maður.

Ég fann glöggt fyrir þessum vilja, ég vil kalla það velvilja, á fundum sem ég átti með starfsfólki í heilbrigðisstofnunum þegar ég gegndi embætti heilbrigðisráðherra. Þá mátti sjá hve tilbúið fólk var að leggja mikið á sig til að ná settu marki. Það er síðan okkar sem höldum um stjórnvölinn að sýna varkárni, misnota ekki það traust sem okkur er sýnt og ganga ekki of langt í niðurskurði og aðhaldi. Kerfið má gjarnan svigna og sjálft leita leiða til hagræðingar, slíkt getur meira að segja orðið til að styrkja alla innviði og gert velferðarkerfið öflugra þegar þrengingarnar eru að baki. Svo hart má ekki ganga fram að það brotni. Vonandi tekst okkur að rísa undir þeirri ábyrgð sem á okkur hvílir í þessu efni þannig við verðum traustsins verð. Traustið — gerum ekki lítið úr því.

Á liðnum mánuðum hafa annað veifið komið upp ágreiningsefni innan stjórnarliðsins. Stundum hafa þung orð verið látin falla. Nú er allt slíkt búið, sagði fréttamaður á fréttastofu sjónvarpsins í svokölluðum fréttum sínum í gærkvöld. Hann sagði að óróamenn innan stjórnarliðsins hefðu verið múlbundnir. Margur heldur mig sig, varð mér á að hugsa við órökstuddar fullyrðingar fréttamannsins. Ekki er þetta traustvekjandi spegill inn í sálarlíf á fréttastofu. Eru þar kannski múlar og höft enn þá eftir hrunið og allar hrunskýrslurnar? Þjóðin á líka rétt á alvörufréttafólki ekki síður en öflugri stjórnsýslu og stjórnmálamönnum, fólki sem hvorki lætur múlbinda sig né reynir að múlbinda annað fólk. Það þarf að vera hluti af bjartari framtíð. Það samstarf sem ríkisstjórnin, og stjórnarmeirihlutinn, vill efla með sér byggir ekki á múlbindingu eða fyrirskipunum heldur trausti og virðingu fyrir ólíkum skoðunum, ásetningi um að vinna vel saman að því verkefni sem okkur er treyst fyrir. Þetta gerum við með því að finna í mismunandi áherslum okkar sameiginlegan farveg sem leiðir til niðurstöðu og málamiðlana ef svo ber undir.