138. löggjafarþing — 154. fundur,  9. sept. 2010.

orð utanríkisráðherra um þingmenn.

[10:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hvað er verið að klaga hæstv. utanríkisráðherra? Hvar hafa dagar lífs hans lit sínum glatað? (Gripið fram í.) Hæstv. utanríkisráðherra, sem áður var gleðigjafi í þinginu hefur nú allt á hornum sér, ræðst á menn á alla kanta af minnsta tilefni, hefur ferðast um Evrópu og haldið fram alls konar vitleysu, kveður svo rammt að að það er orðið frægt í fjölmiðlum um alla álfuna, og hérna heima ræðst hann á félaga sinn í ríkisstjórn, hæstv. ráðherra Jón Bjarnason, þann ljúfling sem öllum þykir vænt um — nema kannski þingflokki Samfylkingarinnar eins og komið hefur fram í fjölmiðlum.

Steininn tók þó úr þegar hæstv. ráðherra réðst á góða vinkonu sína í þinginu, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, á mjög grófan hátt leyfi ég mér að segja. Hvað veldur þessari hegðun hæstv. ráðherra og hvers vegna ræðst hæstv. ráðherra á Framsóknarflokkinn, flokkinn sem gaf Samfylkingunni annað tækifæri í lífinu eftir að hún var búin að klúðra upp á hvern einasta dag eftir að hún komst í ríkisstjórn? Það er orðið frægt í níu bindum. Þá ræðst hæstv. utanríkisráðherra á þann eina flokk sem gaf honum annað tækifæri. Getur verið að hæstv. ráðherra sé í jafnvægi þegar hann fer að tala um skoðanakannanir? Það getur ekki annað en beint athyglinni að því að enginn flokkur hefur tapað jafnmiklu fylgi og Samfylkingin, og þessi ríkisstjórn sem hæstv. ráðherra situr í er nú komin niður í sama fylgi og ríkisstjórn hrunsins var í í október 2008. Hvað veldur þessari hegðun hæstv. ráðherra? (Gripið fram í.)

Nú held ég að ég verði að hleypa hæstv. utanríkisráðherra að, það kemur örlítill gleðivottur aftur í andlit hæstv. ráðherra og vonandi endurheimtum við gamla góða utanríkisráðherrann sem við höfum saknað hér undanfarnar vikur.