138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég vakti athygli á er að við höfum skýrt og ljóst dæmi um þessa samþættingu valds, sem ég held að hver einasti þingmaður sem stigið hefur í þessa pontu hafi rætt um. Ég bendi á að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið vinna saman að fjárlagagerð sem löggjafarvaldið mun svo fá í sínar hendur og sömu menn sitja beggja vegna borðsins. Það var það sem ég vildi ræða og fá svör við því hvort við gætum ekki afstýrt þessari vitleysu í ljósi þess að ég held að það sé mikill þingmeirihluti og vilji fyrir því hjá þinginu að breyta einmitt þessum vinnubrögðum. Við erum alltaf að tala um að við viljum aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds en við þurfum þá að stíga skrefin í þá átt. Við verðum að finna hvar brotalamirnar eru og koma með umbótatillögur.

Það er svo annað mál að það þarf að sjálfsögðu að tryggja fjárveitingar til Alþingis til að það geti sinnt störfum sínum.

Fyrir tveimur árum síðan voru gerðar breytingar á þingskapalögum. Ræðutíminn var styttur. Stjórnarandstaðan barðist mjög gegn því að þessar breytingar yrðu að veruleika, það átti að koma í veg fyrir málþóf og að mínu mati voru tæki og tól stjórnarandstöðunnar skert til mikilla muna. Það eru margir sem hafa komið í ræðustól og lýst því yfir að ræðutíminn sé of skammur til að fjalla málefnalega um þetta mikilvæga mál og mörg önnur. Ég velti fyrir mér og vil spyrja hæstv. forseta: Getur verið að þingið hafi fyrir tveimur árum gert þau mistök að telja að umræðurnar ættu að vera líflegri og (Forseti hringir.) skemmtilegri þegar við þurfum einmitt á því að halda að þær séu málefnalegri og að kafað verði dýpra ofan í einstaka hluti?