139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

86. mál
[19:11]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafna þeirri kenningu hv. þingmanns að það væri allmiklu betra ef við værum algerlega ómenntuð. (Gripið fram í.) Það getur ekki verið. Eða það getur svo sem verið en ég held nú samt ekki.

Við höfum að meginhluta talað um siðferði og siðfræði í heimspekikennslu en heimspeki fjallar um miklu meira en bara það. Rökfræðin kennir manni t.d. ákveðna tegund af rökhugsun sem gerir manni kleift að afmarka og greina það sem maður er að fjalla um miklu betur en ef maður hefði ekki þá kunnáttu. Það virðist vera landlægt hér eins og víða annars staðar að ræða alls konar — ég leyfi mér að kalla það tittlingaskít, sem skiptir engu máli. Laxness sagði á sínum tíma að Íslendingar ættu alltaf erfitt að koma sér að kjarna málsins. Þegar kæmi að kjarna málsins slægi þögn á menn. (Gripið fram í.) Ég verð oft vitni að því í umræðunni að menn ræða út og suður um alla hluti en hafa einfaldlega ekki burði til að rökræða á málefnalegan hátt um fullt af hlutum.

Ég þakka mína hæfileika í hugsun, sem ég hef notið góðs af, því að ég álpaðist í miðju viðskiptafræðinámi á sínum tíma til að taka áfanga í heimspeki. Það heillaði mig hvað ég fór að hugsa öðruvísi og skýrar um viðskiptafræðina með þeim verkfærum. Þess vegna er ég svona ákafur í þessu máli, ég hef reynt það á sjálfum mér að það gaf góða raun. Ég held að allir ættu að fá að njóta þess að fá þessi verkfæri með í menntun sína.