139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég beini því til hv. Alþingis að þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð núna við gerð fjáraukalagafrumvarpsins verði breytt fyrir næstu fjáraukalagagerð. Í fyrsta lagi kemur framkvæmdarvaldið með margar og stórar breytingartillögur inn á síðustu stundu fyrir gerð frumvarpsins og í öðru lagi tel ég t.d. þær millifærslur sem hafa átt sér stað í bótaflokkunum upp á rúma 6 milljarða kr. sem þýðir að útgjöld ríkisins lækka um 4 milljarða kr., þ.e. það er skert um 4 milljarða kr. til ellilífeyrisþega og öryrkja, meira en ráð var fyrir gert. Það þarf að skoða alveg sérstaklega.

Síðan tek ég undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, það er mjög til lítils að fjalla hér um tillögur frá framkvæmdarvaldinu þegar búið er að ráðstafa peningunum og eyða þeim. Þessu verklagi verður að breyta. (BirgJ: Heyr.)