139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[20:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða og málefnaleg. Farið hefur verið yfir þau álitaefni sem birtast okkur fyrir 3. umr. fjáraukalaga.

Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gerði að umtalsefni í lok ræðu sinnar þá þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi fyrir ekki svo löngu síðan með öllum greiddum atkvæðum. Hann rakti í þó nokkuð ítarlegu máli þann vilja Alþingis að styrkja þingið og efla gagnvart framkvæmdarvaldinu. Nú er það einfaldlega þannig að lítið sem ekkert hefur breyst í þá veru. Ég held að það sé í rauninni inntak málflutningsins sem hefur birst okkur í dag og því miður eitthvað sem okkur tekst ekki að breyta.

Ég hef velt fyrir mér upp á síðkastið af hverju okkur tekst ekki að breyta hlutum sem svo mikill vilji er fyrir. Ég held að nokkrar ástæður séu fyrir því. Sumir hafa nefnt hið svokallaða flokksræði eða foringjahollustu. Formenn flokkanna ráða því hverjir ráða ríkjum í fjárlaganefnd, geta í rauninni með einu handbragði skipt út óþægilegum einstaklingum og þeim sem eru hugsanlega gagnrýnir á vinnubrögðin í ráðuneytunum. Ég hef hins vegar upplifað upp á síðkastið að nýr formaður nefndarinnar, Oddný Harðardóttir, hefur tekið upp ný vinnubrögð á margan hátt og því ber að fagna. Ég vona að framhald verði á því. Sátt er um marga hluti í fjárlaganefnd þó að eðli málsins samkvæmt hafi menn mismunandi skoðanir á því hvaða leið eigi að fara. Það er líka ástæðan fyrir því að menn kjósa sér mismunandi stjórnmálaflokka til að starfa í.

Ég held að ein ástæða þess að ekki er hægt að breyta hlutunum sé að Alþingi sé einfaldlega ekki í stakk búið eins og staðan er í dag til að fara jafnítarlega og þarf yfir þau mál og þær tölur sem lagðar eru fyrir nefndina. Oft og tíðum gerist þetta með stuttum fyrirvara. Maður veltir fyrir sér hvort framkvæmdarvaldið vilji hafa það þannig, koma seint inn með óþægileg mál þannig að ekki sé hægt að fara yfir þau en ég vil þó ekki ætla nokkrum manni slík vinnubrögð.

Ég held að staðreyndin sé einfaldlega sú að Alþingi skorti mannafla til að fara yfir þau gögn sem eru lögð á borð fjárlaganefndar. Þetta eru ítarleg gögn, flókin, hagfræðileg, viðskiptafræðileg, lögfræðileg gögn, tölur sem þarf að skoða, velta fyrir sér og bera saman við fjárlög síðustu ára. Þá þarfnast fjárlaganefnd að sjálfsögðu sérfræðinga sem geta farið yfir þetta. Nú býr fjárlaganefnd Alþingis reyndar svo vel að hafa þannig einstaklinga til umráða, vil ég kalla það, sem hafa reynst gríðarlega dýrmætir og í rauninni gert það að verkum að fjárlaganefndin hefur þó fúnkerað eins vel og raun ber vitni. En við verðum að breyta þessum hlutum. Ég held að við þurfum að koma í veg fyrir lausatökin, koma á skýrum reglum og sjá til þess, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur meira að segja bent á, að fjárlögin séu unnin inni í fjárlaganefnd hjá Alþingi, hjá þeim sem eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar landsins. Ekki fyrr mun almenningur fara að treysta því sem kemur frá Alþingi og Alþingi endurheimta virðingu sína.

Eins og rakið hefur verið voru 55 milljarðar afgreiddir úr nefndinni á stuttum tíma. Það er gríðarleg fjárhæð. Í því sambandi langar mig að ræða þá talnablindu sem mér finnst hafa hellst yfir þjóðina. Við deilum stundum um hvort við eigum að setja eina eða tvær milljónir í einstök verkefni sem skipta fólk hvar sem er á landinu gríðarlegu máli. Næsta hálftímann erum við svo að rífast um milljarðatugi. Það skiptir einstakling gríðarlega miklu máli hvort hann fær fjárframlag upp á 1 eða 2 milljónir í verkefni sitt, það getur ráðið úrslitum um nýsköpunarverkefni svo dæmi sé tekið. Það skiptir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu gríðarlega miklu máli ef hægt er að auka framlög til hennar um nokkrar milljónir, 10–20 millj. kr. svo dæmi sé tekið. Það getur skipt sköpum varðandi öryggi þjóðarinnar. Einu sinni lagði heilbrigðisráðherra til að lagðir yrðu 2 milljarðar í málaflokk aldraðra. Það þótti á sínum tíma gríðarlega há fjárhæð. Í Icesave-deilunni breyttust hlutföllin og allt í einu voru menn farnir að ræða um milljarðatugi eins og að drekka vatn. Ríkisstjórnin og meiri hlutinn lagði til og samþykkti að ríkissjóður mundi taka á sig vaxtagreiðslur um 35–40 milljarða á hverju ári umfram skyldu. Í dag stöndum við frammi fyrir því að 55 milljarðar voru afgreiddir úr fjárlaganefnd af 48 milljörðum en þeir komu sem betur aftur þar inn.

Mér finnst líka umræðan áðan og fyrirspurnirnar til hv. formanns fjárlaganefndar einkennast af því að nefndarmenn eru einfaldlega ekki alveg með á hreinu af hverju 22 milljarðar eru greiddir út af ábyrgðum á lánum Lánasjóðs landbúnaðarins. Ýmislegt hefur komið fram í umræðunni eins og til að mynda að þetta sé afleiðing af einkavæðingunni. Ég held að það sé ekki rétt. Ég get ekki séð neitt samband þar á milli. Meiri hlutinn reynir að ýja að því í meirihlutaáliti sínu að einhver tenging sé við einkavæðinguna á sínum tíma. Jafnvel þótt sá sem hér stendur hafi ítrekað viðurkennt að þar hefði mátt standa mun betur að málum þá verðum við að vera heiðarleg í umræðunni og koma hreint fram. Þegar lánasjóðurinn var seldur var það tveimur til þremur árum eftir að einkavæðing bankanna átti sér stað. Hann var í rauninni seldur sem sérstæð eining og ekki mikill ágreiningur um þann gjörning. Ríkisábyrgðirnar fóru með. Á þeim tíma var ákveðið að þær skyldu fylgja með í kaupunum.

Í umræðunni sem þá fór fram var það í rauninni ekkert gagnrýnt. Menn gagnrýndu að sjóðurinn væri seldur en afar fáir eða enginn eftir því sem ég best fæ vitað sáu ástæðu til að gagnrýna að ríkisábyrgð færi með. Því hefur samt verið fleygt fram í umræðunni að það hafi verið mistök. Ég get ekki dæmt um það frekar en þeir sem hafa tekið til máls hér en það liggur samt fyrir að betra verð fæst fyrir sjóð sem seldur er með ríkisábyrgðum og lán sem hægt er að veita í kjölfarið fást á betri kjörum þegar ríkissjóður ábyrgist eitthvað. Það liggur fyrir. Menn geta svo deilt um það núna hvort selja hefði átt lánasjóðinn. Ég held að upp úr standi að við eigum að halda hjá ríkinu öllum þeim ríkisábyrgðum sem það stendur fyrir. [Kliður í þingsal.] Í framtíðinni eigum við ekki að selja eða láta frá okkur í hendur á einkaaðilum himinháar lánsfjáraukningar sem — virðulegi forseti. Er hægt að halda einn fund í salnum?

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég þakka fyrir, frú forseti. Það sem ég er að reyna að segja er að við eigum einfaldlega að halda hjá ríkinu öllum þeim útgjöldum sem ríkið stendur fyrir. Við eigum ekki að færa þau í hendur einkaaðila. Ég held að sú stefna að færa í einkarekstur hafi mistekist og við eigum einfaldlega að hverfa frá henni.

Þegar lánasjóðurinn var seldur lá fyrir að einhver hafði fjármagnað sjóðinn. Ég kallaði eftir upplýsingum um hverjir það voru en ég hef fengið fá svör. Það liggur samt fyrir að á einhverjum tímapunkti keyptu innlendir aðilar þær kröfur sem þeir áttu á hendur sjóðnum og þar með á Landsbankanum. Í fjárlaganefnd voru gefnar þær upplýsingar að þetta væru að stærstum hluta lífeyrissjóðir landsins og einhverjir ótilgreindir innlendir aðilar. Það sem gerðist í kjölfarið var að Landsbankinn fór í þrot og þá vaknar í rauninni upp heimild lífeyrissjóðanna til að krefja ábyrgðarmanninn um greiðslu á þeim skuldum sem þarna voru til staðar.

Það sem hefur hins vegar verið gert að umtalsefni í dag er að þetta sé á einhvern hátt óeðlilegt. Í mínum huga er fullkomlega eðlilegt að kröfuhafi krefji ábyrgðarmann að skuld um greiðslukröfuna þegar skuldarinn fer í gjaldþrot eins og augljóst er í þessu tilfelli. Það sem er hins vegar óeðlilegt er að á einhverjum tímapunkti við fall bankanna var Landsbankanum skipt upp í gamla Landsbankann og Nýja Landsbankann. Svo virðist sem þessi eign hafi að hluta til farið yfir í Nýja Landsbankann sem getur innheimt kröfurnar án þess að ríkissjóður fái að njóta þess. Hvernig á hann að njóta þess? Jú, hann hefur gert kröfu í þrotabú bankanna um endurheimtur en ég held að það sé alveg á hreinu að við munum sjá afar lítið af þeim peningi sem finnst þar vegna þess, eins og alþjóð veit, þá á það sem kemur inn í þrotabúið að ganga upp í Icesave-kröfurnar. Ég held því að það sé útilokað að ríkissjóður fái þessar fjárhæðir að einhverju leyti til baka.

Hér er einnig um að ræða framlag upp á 33 milljarða til Íbúðalánasjóðs. Stór hluti af því er tilkominn vegna þess að styrkja þarf eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs. Ég hef hins vegar velt fyrir mér af hverju skeikar um 4 milljarða hver þörfin er í rauninni. Það undarlega kom fram í umræðunni og ég gat ekki skilið það betur en svo en að á einhverjum tíma hafi sjóðurinn neitað að mæta fyrir nefndina eins og óskað hafði verið eftir. Því var hafnað eftir því sem ég best fæ skilið og málið afgreitt. Svo kom málið aftur inn til nefndarinnar vegna þess að einhver í röðum stjórnarmeirihlutans sætti sig ekki við þessa aðferð. Þá loksins komu fulltrúar Íbúðalánasjóðs sem útskýrðu fyrir okkur af hverju þeir þyrftu aukaframlag. 4 milljarðar eru gríðarlega há fjárhæð. Hún er svo há að hægt væri að bjarga heilbrigðisstofnunum víðs vegar um landið með þeirri fjárhæð einni, heilbrigðisstofnunum sem eru núna í mikill hættu vegna boðaðs niðurskurðar.

Ekki hefur heldur verið útskýrt nægilega vel af hverju eiginfjárhlutfallið er jafnslæmt og raun ber vitni. Samt liggur fyrir að stærsti hlutinn er vegna þess að Íbúðalánasjóður, eins og aðrar fjármálastofnanir, getur ekki innheimt stóran hluta af þeim kröfum sem hann á útistandandi. Fjármálastofnanirnar geta ekki innheimt á heimili landsins eins og þær ætluðu sér og sjá í hendi sér að stór hluti krafna þeirra er tapaður. Það er í rauninni ekkert undarlegt. Við sáum að við skiptinguna milli nýja bankans og gamla bankans fór sá gamli yfir með 50% afslætti, væntanlega vegna þess að menn áætluðu að hann væri ekki meira virði en það.

Þetta er akkúrat það sem við í Framsóknarflokknum höfum talað um. Það hefur verið borð fyrir báru til að bjarga íslenskum heimilum, til að leiðrétta óréttlætið sem átti sér stað þegar lánin stökkbreyttust og millistéttinni, barnafjölskyldum, venjulegu fjölskyldufólki var gert að taka á sig vandann og hrun bankanna. Hluti af þeim milljörðum sem hér er rætt um eða 12 þeirra eru einmitt út af aðgerðapakkanum sem ríkisstjórnin boðaði fyrir þremur dögum síðan. Ég velti því fyrir mér hvort nú sé einfaldlega verið að leiðrétta eiginfjárhlutfall bankanna og Íbúðalánasjóðs. Þeir vissu að á einhverjum tímapunkti yrði þeim ekki stætt á því að halda eiginfjárhlutfallinu jafnháu og þeir hafa gert hingað til. Það lá fyrir að allt það sem þeir verðmátu sem eign, allar skuldir heimilanna sem þeir litu á sem eign í sínum fórum, mundi ekki innheimtast. Það var engan veginn raunhæft að reikna með því að þetta væri hluti af eigin fé bankanna. Þetta var svona eins og það er.

Kallað hefur verið eftir að atkvæðagreiðslunni verði frestað. Ég tek undir þá beiðni. Ég held að skynsamlegt sé að fjárlaganefnd fari betur yfir þennan gjörning og jafnvel þó málið sé komið til 3. umr. þá held ég að það væri afar gott fyrir ásýnd Alþingis og þann aga sem hefur verið boðaður að við mundum gera það.

Að lokum vil ég segja: Það er margt jákvætt að gerast í fjárlaganefndinni að mínu mati. Ágætissamstaða er um marga hluti og fjárlagavinnan hefur verið á margan hátt ánægjuleg. Því miður sýnir frumvarpið og þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur lagt fram um að skuldsetja ríkissjóð um 55 milljarða að enn er langt í land. Við skulum vona að það breytist.