139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Honum varð tíðrætt um vinnubrögð og að þau þurfi að bæta. Ég get vissulega tekið undir það með honum en mig langar samt að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að Íbúðalánasjóður varð fyrir skakkaföllum við fall bankanna og í efnahagslægðinni sem fylgdi á eftir og að ljóst var að ríkið þyrfti að koma með fjármagn þannig að eiginfjárhlutfallið næði því marki sem reglur um sjóðinn segja til um en þar er miðað við um 5%. Einnig hefur verið ljóst að í þeim lausnum sem nú liggja fyrir um skuldavanda heimilanna kæmu aðgerðir sem snertu stöðu Íbúðalánasjóðs. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort það hafi komið honum algjörlega í opna skjöldu að bregðast þyrfti við stöðu Íbúðalánasjóðs núna í fjáraukalögunum.

Einnig spyr ég hv. þingmann þar sem athugasemdir um ríkisábyrgðir voru bæði í ríkisreikningnum 2008 og 2009, þ.e. þær stóru ábyrgðir sem við erum að tala um núna: Kom sá gjörningur að færa skuldbindingarnar yfir í efnahagsreikning nú þegar í raun hefði átt að gera það árið 2008 samkvæmt góðum reikningsskilareglum líka flatt upp á hv. þingmann? (Utanrrh.: Þú getur ekki svarað þessu.)