139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það sé gott að rannsaka þetta og læra af sögunni, en ég bendi hins vegar á að menn mega ekki blanda þessu öllu saman því að einkavæðing bankanna fór fram 2003 en Lánasjóður landbúnaðarins var seldur 2005 þannig að það kemur í raun og veru ekkert fyrri einkavæðingu bankanna við. Þess vegna hallast ég alltaf meira og meira að því að hæstv. fjármálaráðherra hafi í raun verið að segja satt að þetta hafi verið klúður við einkavæðingu bankanna, hann gleymdi bara að segja sína eigin einkavæðingu. (Gripið fram í.)

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um í sambandi við Íbúðalánasjóð. Að sjálfsögðu er það þannig þegar ákveðin lög eru í gildi um Íbúðalánasjóð um að hann þurfi að hafa ákveðið eiginfjárhlutfall og það er ríkisábyrgð á lánum Íbúðalánasjóðs að þá gefur augaleið að það þarf að gera þetta með þessum hætti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það þurfi að bregðast við því, en ég bendi hins vegar á, eins og hv. þingmaður spyr líka um, er þá ekki eðlilegt að gerð sé heildarúttekt á hvoru tveggja þessara mála eftir á? Það væri vissulega gott en ég hefði hins vegar talið betra að það yrði skoðað að menn gætu rætt um þessar ríkisábyrgðir sérstaklega áður en ákvörðun er tekin. En látum það liggja á milli hluta. En ég minni hv. þingmann á að það liggur nú þegar fyrir ákvörðun um það í þinginu, þó að ekki sé búið að útfæra hvernig það verður gert og hvenær, að gera sérstaka úttekt á Íbúðalánasjóði. Það var boðað þegar við ræddum þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar, þá komu einmitt fram hugmyndir frá vissum hv. þingmönnum um að óska eftir sérstakri rannsókn á Íbúðalánasjóði. Það liggur fyrir að það verður gert þannig að væntanlega mun þetta þá koma allt upp á yfirborðið sem hv. þingmaður er að benda á hér. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni í því að það er mjög mikilvægt (Gripið fram í.) að farið verði í slíkar skoðanir á þessum tveimur málum og menn læri af því, en það verður líka að ítreka það að menn læri þá líka af því. Það er ekki nóg að segjast ætla að læra af því, því að við höfum líka sagt það hér, margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, (Forseti hringir.) að við ætlum að læra af bankahruninu. Mér finnst að margir hafi lítið lært.