139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir sérstaklega einlæga og opinskáa ræðu hvað varðar málefni Íbúðalánasjóðs. Það er rétt að draga það fram að hv. þingmaður er ekki að koma að málinu bara núna, hún hefur mjög yfirgripsmikla þekkingu frá fyrri reynslu sinni í félagsmálaráðuneytinu þar sem hún, eftir því sem ég best veit, fór m.a. yfir húsnæðismálin. Hér talar þingmaður frá Samfylkingunni af mikilli þekkingu, af miklum heiðarleika og á opinskáan hátt um það að hér sé ekki búið að gefa nægilega glögga mynd, eins og ég skildi hv. þingmann sem fór tölfræðilega mjög vel yfir þau vandamál sem við blasa hjá þessum mikilvæga sjóði, banka í eigu landsmanna.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann í ljósi þess að hv. þingmaður sagði að við þingmenn, hvort sem við erum í fjárlaganefnd, félagsmálanefnd eða efnahags- og skattanefnd, þyrftum að hafa mjög glögga mynd af stöðu sjóðsins og hverjar raunverulegar þarfir hans eru varðandi fjármögnun: Getur hún tekið undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að bíða með það að greiða atkvæði í þessu máli þannig að þingið geti aflað sér gagna á þeim dögum sem eftir eru fram að þinghléi fyrir jól til þess einmitt að við þingmenn förum í það hlutverk og þann búning sem hv. þingmaður var að kalla á undir lok ræðu sinnar? Að við förum yfir það hver hin raunverulega staða Íbúðalánasjóðs er þannig að við getum tekið afstöðu til þessa máls á grundvelli gagna, á grundvelli glöggrar myndar eins og hv. þingmaður var að kalla eftir?