139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í góðri bók stendur: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“ Og það er líka haft á orði að óskynsamlegt sé að kasta steinum úr gróðurhúsi eða glerhúsi.

Mig langar að rifja þetta upp við hv. þm. Björn Val Gíslason í ljósi þess að fyrr í dag vorum við að fjalla um breytingar á lögum hvað varðar styrk og stuðning við nýsköpunarfyrirtæki vegna þess að ábending ESA var um það að mistök hefðu verið gerð í fjármálaráðuneytinu, hjá hæstv. fjármálaráðherra og formanni Vinstri grænna. Það sama er uppi á teningnum varðandi aðkomu ríkisins, og þar með hæstv. fjármálaráðherra og ráðuneytis og ríkisstjórnar, þegar menn sprautuðu peningum inn í Sjóvá – Almennar. Það mál er til skoðunar. Þá hefur þess verið getið hér úr ræðustól og oft verið gagnrýnt — og satt best að segja hafa ekki öll kurl komið til grafar hvað það varðar, þ.e. skiptingu milli gömlu bankanna og nýju. Þess vegna finnst mér það óvarlegt af þingmanninum að ráðast eingöngu á fortíðina og telja að þau mistök sem þá hafi verið gerð verði ekki gerð aftur, svo virðist nefnilega vera sem við eigum ýmislegt ólært.

Ég fagna því hins vegar að þingmaðurinn skuli koma hingað upp og gera þingmönnum öllum og þeim sem á mál hans hlýða grein fyrir því að þetta er ekki tapað fé. Varðandi Lánasjóð landbúnaðarins upp á 13,4 eða 13,6 milljarða, og sölu á sínum tíma, langar mig að heyra mat hv. þingmanns á því hvað hann telji að upphæðin sé stór sem sé töpuð og muni falla á ríkissjóð, því auðvitað er þetta heimild … (Forseti hringir.) ríkisvaldið en ekki útgjöld.