139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

orka í jörð í Þingeyjarsýslum.

232. mál
[11:28]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta eru fróðlegar upplýsingar þó þær séu ekki alveg nýjar hjá hæstv. ráðherra. Af því tilefni held ég að rétt sé að fagna ummælum hv. þingmanns um að hann telji að það þurfi að fara mjög hægt og varlega í uppbyggingu sem byggist á orkumagnsspám um orkuna í jörðu í Þingeyjarsýslum. Þess vegna er ekki heppilegt að byrja á stórum og miklum verksmiðjum eins og álverum sem þurfa mikla orku undir eins — jafnvel þó menn skipti í áfanga er ljóst að lokaáfanginn er þannig — heldur reyna aðra kosti.

Ég reyndar furða mig á því að hv. þingmaður skuli ekki hafa gert grein fyrir þeim mun sem hann telur vera á rannsóknum annars vegar og hins vegar umhverfismati í þessum efnum. Umhverfismatið byggist á rannsóknum og niðurstöður umhverfismatsins eru einmitt þær að fara verði mjög hægt vegna þess að ákaflega lítið er vitað um (Forseti hringir.) raunverulega vinnanlega orku í jörðu á þeim svæðum sem um er að ræða.