139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[11:22]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða styttingu á fyrningu krafna í gjaldþrotamálum úr fjórum, tíu og tuttugu árum niður í tvö ár. Þetta er gríðarlega mikilvæg réttarbót að mínu mati fyrir skuldug heimili. Það hefur mikill tími farið í að vinna þetta mál innan allsherjarnefndar. Ég tel að það hafi verið mjög vönduð vinna. Þessi breyting gerir fólki í miklum erfiðleikum, sem hefur þurft að fara í gegnum gjaldþrot, kleift að rísa fyrr á fætur og hefja að nýju þátttöku í atvinnulífinu.