139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég taki af öll tvímæli um það þá er ég ekki að mæla því bót að menn fari eftir þessum leiðbeiningum. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns og hann benti réttilega á erum við að fara eftir þessum leikreglum og erum í raun og veru að blöffa okkur sjálf með því, því að auðvitað munum við síðan bera ábyrgð á öllum lánunum og þurfa að greiða fyrir framkvæmdirnar. Það hefur stundum verið sagt að þetta sé svokölluð Álftanesleið sem við erum í raun og veru að fara sjálf hjá ríkissjóði. Ég nefndi áðan í andsvari að við værum komin með eina 140 milljarða fyrir utan ríkisreikning þannig að menn eru svona að setja höndina a.m.k. fyrir annað augað.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um aðra breytingartillögu. Hún felst í því að skattleggja helming af inngreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar. Mig langar að fá útskýringar á því hjá hv. þingmanni af því að við höfum fjallað töluvert um þetta mál, þingflokkur sjálfstæðismanna, eins og þingmanni er kunnugt um. Hver er ástæðan fyrir því að menn vilja taka einungis helminginn af þessu? Og til viðbótar, það kemur ekki fram hvort skattleggja eigi inngreiðslurnar sem verða áfram en eftir því sem við höfum skoðað þetta mál betur verðum við æ sannfærðari um að mjög mikilvægt sé að taka allan stabbann, þ.e. allan séreignarlífeyrissparnaðinn og skattleggja hann í eitt skipti fyrir öll og skattleggja síðan inngreiðslurnar í sjóðina til að skapa ekki flókið ástand í kerfinu sem slíku.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hver sé ástæðan fyrir því að hann vill ekki ganga svo langt að taka af öllum sparnaðinum. Eins og komið hefur fram á að sjálfsögðu að nota þessa peninga til að greiða niður vaxtagjöld og reyna að draga úr vaxtaútgjöldum ríkissjóðs sem yrðu þá enn frekari, en þetta hefur engin áhrif innbyrðis á milli launagreiðanda og eiganda séreignarsparnaðarins hvort heldur allur skatturinn er tekinn af strax eða ekki.