139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni fyrir ræðuna. Það var sérkennilegt þetta með að þeim sem hefðu hugað að því að kollvarpa frumvarpinu hefði ekki orðið ágengt. Það er einfaldlega þannig að innihaldið er horfið í frumvarpinu sem lagt var fram í upphafi og komið er nýtt frumvarp sem er að innihaldi töluvert breytt frá því sem fram var lagt. Það má segja að frumvarpinu hafi verið kollvarpað án þess að heildarmyndinni hafi verið mikið breytt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um tvö ekki mikilvæg atriði í sjálfu sér í heildarpakka fjárlaganna. Ég velti því fyrir mér hvort atriðin geti hugsanlega verið fordæmisgefandi. Annars vegar er niðurfelling skulda vegna RES-orkuskóla upp á 30 milljónir. Mun þetta verða fordæmisgefandi fyrir skóla sem skulda annaðhvort öðrum skólum eða skulda ríkinu? Er hér um tilfallandi dæmi að ræða?

Hins vegar er grunnskólinn lögbundið verkefni sveitarfélaga. Hér ákveður fjárlaganefnd þvert á fagnefnd, þ.e. menntamálanefnd, að veita til sérstaks verkefnis innan grunnskólans í ákveðnum hluta samfélagsins, 4,5 verkefnum í afmarkað sérkennsluverkefni. Ég spyr hv. þingmann: Er þetta fordæmisgefandi fyrir fræðsluskrifstofur vítt og breitt um landið að geta sótt stuðning til fjárlaganefndar við sérkennsluverkefni sem þær vinna að? Ég tek það fram að verkefnið sem um ræðir er gott og þarft en þetta er lögbundið verk grunnskólans sem fjárlaganefnd ákveður þvert á tillögur menntamálanefndar að fara með. Ég er ekki að lasta verkefnið, það er gott, en er það fordæmisgefandi fyrir fræðsluskrifstofur vítt og breitt um landið að geta farið til fjárlaganefndar og (Forseti hringir.) sótt sérstaklega í slík verkefni.