139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:32]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að segja eins og er að ég er engu nær um hvernig í ósköpunum hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins fá út að þær skattaaðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til hafi hækkað skatta um 152 milljarða kr. þó að tekjur hafi aukist. Ég er engu nær um það. Það hlýtur þá að vera miðað við þær skatttekjur sem áætlaðar eru á næsta ári upp á 445 milljarða kr., ef ég man rétt. Það væri þá um tíunda hluta vergrar þjóðarframleiðslu lægra á næsta ári, miðað við ef ekki hefði verið gripið til þessara skattahækkana, ef ekki hefðu komið inn tekjur á móti upp á 152 milljarða.

Ég átta mig ekki heldur á tillögum sjálfstæðismanna um að kalla til baka alla skatta og væntanlega þær skattahækkanir sem þeir réðust sjálfir í haustið 2008 eftir hrunið þegar þeir hækkuðu nánast alla skatta á einstaklinga en slepptu fyrirtækjum og fjármagnseigendum í það skiptið eins og hingað til. Eins og segir í þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna, með leyfi forseta:

„Því er hér lagt til að allt að 10 milljörðum kr. verði varið til að lækka skattbyrðina á næsta ári og skattahækkanir ríkisstjórnarinnar verði að fullu dregnar til baka árið 2012.“

Það eru þá væntanlega 152 milljarðar að núvirði. Mig langar til að fá að vita hvernig þetta gengur allt saman upp því að þarna stangast á tölur á milli gagna frá Sjálfstæðisflokknum. Hver reiknaði þessa vitleysu eiginlega ofan í þingmenn? Ég átta mig engan veginn á því hvernig í ósköpunum mönnum dettur þetta í hug, að tíundi hluti vergrar þjóðarframleiðslu hafi náðst með skattahækkunum á einu og hálfu ári. Hver kemst að svona niðurstöðu? Hvernig í ósköpunum voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þessir annars ágætu þingmenn, narraðir til að setja svona vitleysu inn í nefndarálit?