139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[15:43]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að 1. gr. frumvarpsins er um almennar reglur varðandi hunda- og kattahald. Þar er einmitt þessi rýmkun, að ef ekki er um að ræða sameiginlegan inngang eins og í raðhúsum, sem teljast til fjölbýlis, eða jafnvel í tvíbýlishúsum, þar sem hvor íbúð er með sinn inngang, gildi ekki þessar reglur um hunda- og kattahald, þá hafi menn leyfi til þess að halda hund. Það er leyft jafnvel þó að lóðin sé sameiginleg enda tilskilið að þá þurfi menn að hafa hundinn, eða köttinn, í bandi eða undir öruggri stjórn þegar farið er að og frá inngangi.

Ég vona að þetta svari spurningunni. Það er sem sagt verið að skýra þarna reglur almennt varðandi hunda- og kattahald og starfshópur hefur verið að vinna fyrir velferðarráðuneytið að því að endurskoða fjöleignarhúsalögin. Ég óskaði eftir að þetta atriði yrði sérstaklega tekið út úr í byrjun en verið er að fara yfir að heildstætt og þar búa menn yfir mikilli reynslu einmitt af árekstrum sem hafa orðið í fjölbýlishúsum og mönnum þótti of strangt að það væri bannað að hafa hunda í fjöleignarhúsi. Eins og ég segi geta raðhús talist fjöleignarhús og þá þurfti samþykki allra í raðhúsinu þótt hver íbúð sé með sinn inngang. Því er breytt hér og það rýmkað en eftir sem áður, ef það er sameiginleg lóð verða menn að leiða hundana í bandi yfir það svæði en það er ekki hægt að banna mönnum að hafa hund ef inngangurinn er sér.