139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar á Miðnesheiði.

427. mál
[16:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Á fundi sem ríkisstjórnin hélt á Suðurnesjum þar sem samþykkt var aðgerðaáætlun til að takast á við hið mikla atvinnuleysi sem þar ríkir — atvinnuleysið hefur verið langmest þar á öllu landinu nú í mörg ár, ekki bara frá hruni heldur fyrir hrun — var hæstv. innanríkisráðherra falið að skoða vandlega kosti þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðið á Miðnesheiði og gera hagkvæmnisathugun á þeim kosti. Lítið hefur hins vegar frést af þeirri hagkvæmnisathugun þótt niðurstaða hennar hefði átt að liggja fyrir nú í byrjun febrúar.

Hugmyndin um flutning Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin er hins vegar ekki ný af nálinni og fluttar hafa verið að minnsta kosti tvær þingsályktunartillögur þess efnis hér, fyrst á 116. löggjafarþingi og svo á því 130., en þær voru því miður ekki útræddar.

Hér er verið að tala um umtalsverða aðgerð til stuðnings byggðarlaginu á Suðurnesjum. En málið snertir ekki bara byggðapólitík heldur mælir mjög margt með því, ef við horfum til starfsemi Landhelgisgæslunnar, að hún fari á Suðurnesin. Landhelgisgæslan tók um áramótin við stórum hluta verkefna Varnarmálastofnunar sem var á þessum stað. Á þessum tímapunkti gefst því gott tækifæri til að sameina þessar tvær stofnanir á þessum stað þannig að Landhelgisgæslan yrði þá komin í nýrri og mun betri aðstöðu en hún er í núna.

Bent er á að mjög góður flugvöllur er á Suðurnesjum og næg hafnaraðstaða og að varðskipin yrðu þó nokkuð nær almennum miðum en þau eru núna í Reykjavíkurhöfn. Síðast en ekki síst vil ég nefna að íbúar svæðisins hafa í langan tíma verið mjög jákvæðir gagnvart því að starfsemi þessarar stofnunar sé þarna, hafa mikla reynslu og þekkingu á því að þjónusta starfsemi af þessu tagi.

Í ljósi þess að dregist hefur að fara af stað í þessa athugun þrátt fyrir samþykkt ríkisstjórnarinnar, vil ég spyrja:

„Hver er afstaða ráðherra til þess að starfsemi Landhelgisgæslunnar verði flutt á öryggissvæðið á Miðnesheiði?“

Ég vil benda á að í framhaldi af þessari ályktun ríkisstjórnarinnar hafa bæði Reykjanesbær, allir þingmenn Suðurkjördæmis og allir oddvitar meiri hluta og minni hluta í sveitarstjórn á Suðurnesjum skorað á ríkisstjórn Íslands að taka ákvörðun sem fyrst um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja og allir félagar, að ég held, bæði stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna á Suðurnesjum hafa stutt það.