139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur andsvarið. Ég skal reyna að dýpka aðeins það sem ég átti við. Það er rétt skilið hjá hv. þingmanni að ég var að tala fyrir munn mjög margra sem telja að í mörgum málum sem Samkeppniseftirlitið hefur átt aðild að hafi framganga þess verið með þeim hætti að menn bera kannski ekki fullkomið traust til þess að eftirlitið vinni eins og við hefðum flest, og nú fullyrði ég það, hefðum flest viljað.

Ég nefndi í ræðu minni að til að mynda samþjöppun á matvælamarkaðnum, smásölumarkaðnum, hefði verið slíkt og aðgerðaleysi Samkeppniseftirlitsins með þeim hætti að menn töldu að þar væri einn af kannski fjölmörgum eftirlitsaðilum sem við upplifðum á síðustu árum að væru of linir, hefðu ekki gætt hagsmuna almennings og ekki beitt sér sem skyldi. Á sama tíma hefði Samkeppniseftirlitið til að mynda ráðist með talsverðu offorsi á Bændasamtök Íslands og búnaðarþing og talið að fundur þeirra jaðraði við samkeppnisbrot, að þar færi fram óeðlilegt samráð þar sem menn kæmu saman. Og eins og ég nefndi, ef ársfundir einyrkja í starfi teljast vera ólöglegir fundir og þar megi ekkert ræða nema um veðrið eða eitthvað slíkt þá er orðið mjög undarlegt ástand í samfélaginu, ef það er forgangsröðunin, ef valið stendur um annars vegar þau stórfyrirtæki sem stjórna matvörumarkaðnum og hins vegar um þessa fáu einyrkja og Samkeppniseftirlitið velur sér að ráðast á þá en skilur fyrirtækin eftir. Það var það sem ég átti við þegar ég talaði um traust.