139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[16:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er iðulega þannig að menn spá í anda laganna og mikil er trú hv. þingmanns að þetta verði ekki svona af því að það sé óeðlilegt. En það er einmitt það sem gerist. Hryðjuverkalög voru sett í Bretlandi og beitt á íslenska banka. Hverjum datt það í hug þegar lögin voru sett?

Það sem við erum að gera hér er að framselja vald til opinberra starfsmanna. Ef þeir telja að fyrirtækið sem hv. þingmaður rekur í góðri trú á sínu litla, þrönga sviði á markaðnum skaði markaðinn þá geta þeir komið einn góðan veðurdag og skipt fyrirtækinu upp. Á þetta mun einmitt endurskoðandi fyrirtækisins benda honum og segja: Hvað gerum við þá? Fyrirtækið er að stækka of mikið, það er hætta á því að okkur verði skipt upp með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir starfsmenn og eignarhaldið. Er ekki betra að hækka verðið? Er ekki bara betra að reka fyrirtækið ekki alveg svona vel, eyða pínulítið meira í kostnað, sérstaklega í lífeyrisgreiðslur til stjórnenda og annað slíkt? Er ekki betra að nota hagnaðinn þannig í stað þess að búa til almennilega samkeppni á markaðnum?