139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að orðlengja um hlutina en það setti að mér ákveðinn ugg við umræðuna. Hingað upp komu nokkrir hv. þingmenn og sögðu að þetta væri matskennt; jú, jú, þeir treystu því að þetta yrði ekki misnotað; jú, jú, þingið yrði að vera vakandi í þessu máli og fylgjast vel með ákvörðunum og framkvæmdum framkvæmdarvaldsins. Hvað voru menn að segja, frú forseti? Menn voru í rauninni að segja að þeir væru að framselja löggjafarvald og að auka ætti eftirlitið af hendi Alþingis. Alþingi á sem sagt að fara að hafa eftirlit með eftirlitsstofnuninni Samkeppnisstofnun. Ég verð að segja eins og er að það setur að mér ákveðinn ugg þegar umræðan snýst um það að menn viti að lögin séu svo opin að þau kunni að verða misnotuð.

Ég spurði tvo hv. þingmenn að því áðan hvort þetta hefði ekki áhrif á hegðun manna sem eru að reka fyrirtæki sín vel. Það er alveg greinilegt af svörunum, sem voru reyndar ekki mjög ítarleg, að menn vita ekki hvað rekstur er. Ég held það væri kannski ágætt að menn kynntu sér atvinnulífið dálítið betur og áttuðu sig á því hvað það þýðir að reka fyrirtæki. Hvað þýðir það t.d. fyrir fyrirtæki þegar það vofir yfir að því verði skipt í tvennt? Hvað gerist þá innan fyrirtækisins? Það væri gaman ef menn reyndu að kynna sér það, sálarlíf stjórnenda og starfsmanna. Þegar kvisast út að Fjármálaeftirlitið ætli að fara að skipta fyrirtæki upp vegna þess að það sé orðið of stórt — ekki vegna þess að það hafi gert neitt af sér — segja náttúrlega bestu starfsmennirnir upp af því þeir óttast óvissuna sem hugsanlega getur varað í nokkur ár og þeir óttast líka hvað gerist með fyrirtækið. Hætta eigendurnir rekstri eða hvað gerist? Sama sagan er með eigendurna, þeir geta líka fyllst óhug og hræðslu við svona ómálefnalega ákvörðun sem þó er málefnaleg að því leyti að verið er að fara eftir lögum sem segja: Jú, fyrirtækið er orðið of stórt. Það er það eina sem það hefur gert af sér.

Mér finnst mjög slæmt hvað menn virðast rökþrota gegn þessu og segja hver á fætur öðrum að þeir treysti á að Alþingi muni vaka yfir framkvæmd þessara laga. Ég tel að hér sé verið að framselja löggjafarvald sem Alþingi ekki má. Ég er mjög andsnúinn þessari þróun og er dálítið uggandi yfir umræðunni.