139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

þjóðaratkvæðagreiðslur -- lánshæfismat ríkisins -- bætt stjórnsýsla o.fl.

[14:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir að hefja umræðu um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum framkvæmd þeirra. Þegar við afgreiddum nýlega lög um þjóðaratkvæðagreiðslur voru það mér vonbrigði hve grunn umræðan í þingsal var. Ég sat að vísu ekki í nefndinni sem fór með málið en ég taldi að við hefðum þurft að ræða þessa löggjöf mun betur. Það skiptir nefnilega mjög miklu máli þegar við erum að byggja upp það kerfi sem við ætlum að nota í framkvæmd á beinu lýðræði að við vöndum okkur virkilega vel við þann ramma. Hvort sem við erum að tala um almenna löggjöf eða stjórnarskrána sjálfa, hvort sem við erum að tala um ráðgefandi eða bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur, er mjög erfitt fyrir okkur sem stjórnmálamenn að bakka út úr einhverju um leið og við erum búin að taka skrefið og leggja eitthvað fram. Hvaða stjórnmálamaður ætlar að tala gegn lýðræði?

Í ræðu sem ég flutti benti ég á ýmsar ábendingar Gunnars Helga Kristinssonar, eins af okkar helstu sérfræðingum í notkun á beinu lýðræði, þar sem hann benti á mikilvægi þess að við veltum fyrir okkur hvernig við byggðum þetta upp, t.d. um þröskuldana sem voru nefndir hérna, hvort við ættum að hafa að 15, 20 eða 25% ættu að geta farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu. Á það að vera minni hluti Alþingis eða ekki, á frumkvæðið að verða hér innan dyra eða utan?

Í framhaldi kom upp sem hluti af þessu máli, Icesave-málinu, (Forseti hringir.) undirskriftasöfnunin. Við eigum ekki bara að tala um undirskriftasöfnun varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur, heldur allar kosningar. Við þurfum sjálf öll (Forseti hringir.) að safna undirskriftum líka þegar við bjóðum okkur fram þannig að það þarf að hafa sömu reglurnar fyrir bæði þjóðaratkvæðagreiðslur og (Forseti hringir.) forsetakosningar, alþingiskosningar og sveitarstjórnarkosningar.

Ég biðst afsökunar á því að hafa farið fram úr tímanum.