139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

umferðarlög.

495. mál
[16:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst að móðurmálinu. Runninn út á tíma, tíminn er runninn út, það er hárrétt ábending hjá hv. þingmanni. Hins vegar hef ég runnið talsvert við flutninginn á hinni miklu ræðu um frumvarpið.

Hv. þingmaður vekur athygli á mjög veigamiklum þætti í frumvarpinu. Það er ekki svo að ég hafi fundið það upp vegna þess að ýmsar grannþjóðir okkar hafa þann hátt á. Ég vísa til Finnlands, ég vísa til Danmerkur, ég vísa til Svíþjóðar og ég vísa til Þýskalands þar sem svona fyrirkomulag þekkist. Hugmyndin er sú að heimilt verði að veita sakborningi sem hefur tekjur undir hálfum öðrum lágmarkslaunum allt að 25% afslátt af upphaflegri sektarfjárhæð. Með því teljum við að komið sé að einhverju leyti til móts við tekjulága hópa í þjóðfélaginu.

Sektir eru settar á til að fæla fólk frá brotum. Það er staðreynd að fælingarmátturinn er í réttu hlutfalli við stærð pyngju þess sem sektaður er. Hátekjumaðurinn fælist lítið þótt hann þurfi að greiða einhverja tugi þúsunda í sektir. Lágtekjumaðurinn rís hins vegar ekki undir slíku. Það er það réttlæti sem við erum að innleiða jafnframt því þó að við hækkum almennt sektirnar. Til þess að við teljum forsvaranlegt að hækka sektirnar að því marki sem lagt er til viljum við innleiða tekjutengingarhugsunina.

Við höfum farið rækilega í gegnum hvaða fyrirkomulag er best en eftir að hafa borið saman bækur við þá sem eiga (Forseti hringir.) að annast þessi mál teljum við þetta auðveldustu lausnina.