139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

Skipasafn Íslands í Reykjanesbæ.

280. mál
[17:22]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um Skipasafn Íslands í Reykjanesbæ, að Alþingi sé falið að óska þess við mennta- og menningarmálaráðherra að það ráðuneyti gangi til samninga við Reykjanesbæ um Skipasafn Íslands þar sem grunnur safnsins yrðu skipslíkön Gríms Karlssonar, skipstjóra og módelsmiðs.

Við Íslendingar státum okkur oft af Snorra Sturlusyni og þætti hans í íslenskum fornbókmenntum og vekjum gjarnan athygli á því að hann hafi verið sagnamaður á heimsmælikvarða og það er satt. Í sögu fiskiskipa Íslendinga eigum við Íslendingar okkar „Snorra Sturluson“ sem er Grímur Karlsson skipstjóri og módelsmiður í Njarðvíkum í Reykjanesbæ.

Fiskiskip eru stundum talin hafa anda, karma, að þau séu háð örlögum og tilfinningu sem sjómenn bátsins leysa úr læðingi og leggja bátnum til. Skipslíkön Gríms bera í sér persónugerving reynslunnar og söguna um hvernig Íslendingar komust til vits og ára, frá fátækt til velferðar, frá moldarkofum til best byggðu íbúðarhúsa jarðarinnar vegna sjósóknar við Ísland sem við metum aldrei nógsamlega. Öll uppbygging Íslands á 20. öld er meira og minna í skjóli sjávarútvegsins sem gefur okkur 60% af þjóðartekjunum. Hver bátur á sína sögu, hver sjómaður. Hver bátur á Íslandsmiðum hefur verið hluti af gulli Íslendinga, gullmoli út af fyrir sig. Okkur ber heilög skylda til að rækta þá sögu, fræða börn og unglinga, gesti og gangandi um hana og mikilvægi hennar, ekki síst í ljósi þess að Íslendingar eru eina sjálfstæða fiskveiðiþjóðin í allri Evrópu, eina þjóðin sem byggir sitt fyrst og fremst á sjávarútvegi.

Í Bátasafni Gríms Karlssonar í Duus-húsum í Reykjanesbæ eru nú á annað hundrað skipslíkön Gríms af íslenskum fiskibátum, en alls hefur Grímur smíðað á þriðja hundrað skipslíkön sem spanna öll tímabil fiskveiða og fiskveiðisögu Íslands. Með útfærslu bátasafnsins og stækkun væri til að mynda hægt að sýna heilu bátshlutana; lúkar, vélarrými, brú, lest, borðsal, káetur, klefa, þilfar og fleira þannig að sýningargestir gætu upplifað stemninguna og aðstöðuna frá tíma til tíma. Ljósmyndir frá tímum fyrstu fiskiskipanna til dagsins í dag þyrftu að vera ríkur þáttur í slíku safni. Bátasafn Gríms Karlssonar í Reykjanesbæ er einstakt í heiminum því að ekki er vitað um neinn módelsmið á jörðinni sem smíðað hefur eins mörg skipslíkön, hvað þá fiskiskipaflota sem spannar útgerðarsögu heillar þjóðar.

Tíminn líður hratt, virðulegi forseti, og sagan má ekki fölna áður en búið er að koma henni í búning sem eftir stendur. Það er engin spurning að það yrði stórkostlegt fyrir sýningargesti að geta tekið sér sæti í lúkar fiskibáts með kaffibolla og kleinur, andað að sér lykt vélarrýmisins eða heyrt sögur af sjómönnum í brúnni, skoðað tæki og tól sem lifandi hendur hafa unnið með við harðskeyttustu aðstæður á jörðinni. Hvar sem söfn eru byggð upp í heiminum með metnaði og tilfinningu, anda þess sem áhersla er lögð á, eru þau atvinnuskapandi og um leið fróðleg og skemmtileg og skilja eitthvað eftir sem skiptir máli. Þau stækka umhverfi sitt og gera það verðmætara. Þau sýna virðingu þeirri atvinnugrein sem um er að ræða og í tilfelli okkar Íslendinga er það grundvallargullæðin. Þess vegna eigum við að rækta þennan þátt sögu okkar með vinarþeli og virðingu og gera það á glæsilegan hátt. Það er alveg augljóst að ef samið væri við Reykjanesbæ um Skipasafn Íslands á þeim nótum sem hér er getið, með því að koma upp almennu skipasafni í Reykjanesbæ þar sem mörg hús koma til greina — nýta mætti gömul hús sem standa auð — væri það gott innlegg inn í framtíðina.

Það er sorgarsaga að baki í Skipasafni Íslands þegar tugir báta allt frá næstsíðustu öld brunnu inni í geymsluhúsnæði í Kópavogi fyrir nokkrum árum, í geymsluhúsnæði sem sérstaklega var smíðað fyrir bátasafnið. Það er búið, það er farið, en við eigum að nýta það sem er til staðar, við eigum að nýta þá stórkostlegu stöðu sem við höfum vegna einstaks handverks, dugnaðar, áræðis og metnaðar eins manns, okkar Snorra Sturlusonar í sögu fiskiskipa Íslands, Gríms Karlssonar, Siglfirðings sem búsettur er í Njarðvíkum í Reykjanesbæ.

Að lokinni umræðu, virðulegi forseti, óska ég þess að málið gangi til samgöngunefndar.