139. löggjafarþing — 92. fundur,  15. mars 2011.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

557. mál
[16:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann ítarlegar út í þetta sem hann sagði um að gallar á kosningu leiddu ekki til ógildingar kosninga nema ætla mætti að þeir hefðu áhrif á úrslit kosninganna. Þannig stendur það í breytingartillögu meiri hlutans. Segjum að einhver beri fé á t.d. fréttamenn og fái þá til að auglýsa upp einn frambjóðandann. Þetta er í málaferlum, sem sagt biðstöðu, og þá fellir einhver þann úrskurð að þetta hafi ekki haft áhrif á kosningarnar. Hvað segir hv. þingmaður við þessu?

Í öðru lagi erum við núna, og það er tilefni þessara kosninga, að fara í að greiða atkvæði um Icesave-samninginn. Þar hefur mjög mikið verið rætt um jáið, ef menn segja já gerist þetta og þetta, mjög lítið verið talað um neiið. Flestir opinberir aðilar setja sig upp á móti því. Nýjasta dæmið er borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, sem samkvæmt fréttum rétt áðan segir að hann muni greiða atkvæði gegn því. Hann varar við því að fella Icesave og segist ætla að greiða atkvæði með því, með leyfi frú forseta, „ekki vegna þess að ég skilji það eða ég telji að það sé rétt, heldur er ég einfaldlega orðinn frekar leiður á málinu. Ég ætla að kjósa það í burtu,“ segir hann. Hann segir að grafalvarlegar afleiðingar blasi við þjóðinni ef lögin verða felld. Meira að segja gæti verið að við kæmumst ekki inn í Evrópusambandið, sem ég er svo sem ekkert voðalega hryggur yfir. Ég veit að hv. þingmaður er það ekki heldur.

Nánast allir málsmetandi menn, þar á meðal seðlabankastjórinn, eru búnir að taka afstöðu gegn þjóðinni sem, eftir því sem skoðanakannanirnar segja, mun segja nei við Icesave-samningnum.