139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

jafnréttismál.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að forsætisráðherra hafi við ráðningu í embætti beitt aðferðum sem ekki standast skoðun jafnréttislaga. Þrátt fyrir skýringar forsætisráðuneytisins um að mat hafi farið fram á hæfni umsækjendanna kemst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin hafi verið röng og í bága við jafnréttislög.

Nú er alþekkt að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið fremst í flokki þeirra sem annars vegar hafa talað fyrir mikilvægi jafnréttislaga í landinu og því að þeim sé fylgt og svo hins vegar því að menn axli pólitíska ábyrgð og að á þinginu ætti að setja strangari reglur um það hvernig mætti koma ábyrgð yfir ráðherra þegar þeir gerðust brotlegir í starfi. Viðbrögð forsætisráðherra við niðurstöðu kærunefndarinnar bera þess hins vegar vitni að hún telur að þessar reglur, sem hún hefur mest talað fyrir, eigi ekki við um sig og sérstaklega ekki um þetta tilvik. Staðreynd málsins er hins vegar sú að það blasir við allri þjóðinni að forsætisráðherra hlýtur að vera að íhuga afsögn vegna þessa máls og fyrstu viðbrögð hennar við niðurstöðu kærunefndarinnar ganga algerlega í berhögg við einn megintilgang þess frumvarps sem varð að jafnréttislögum fyrir fáum árum, t.d. um að úrskurðir kærunefndarinnar væru bindandi.

Nú ber ég það upp við hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé ekki örugglega alvarlega að íhuga afsögn. Er það ekki eina leiðin fyrir ráðherrann til að standa undir þeim stóru orðum sem hafa fallið bæði um jafnréttislöggjöfina (Forseti hringir.) og um ráðherraábyrgð í gegnum árin? Hins vegar, sé hún ekki að fara að segja af sér, hvort ætlar hún að fara í dómsmál eða greiða skaðabætur vegna þessa máls?