139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson spyr hér grundvallarspurninga varðandi fjárhag Íbúðalánasjóðs. Nú var það svo að í þessari yfirferð var mjög ítarleg kostnaðarumsögn frá fjármálaráðuneytinu en við kölluðum fjármálaráðuneytið ekki sérstaklega til, enda er það ekki venja að fulltrúar þess mæti á fundi sérstaklega út af kostnaðarumsögnum þess. Í ljósi þess sem fram kemur hjá sjóðnum og í kostnaðarumsögn Fjármálaeftirlitsins, í nýrri fjárhagsáætlun frá Íbúðalánasjóði sem verið er að leggja lokahönd á, að afskriftaþörfin hafi aukist miðað við það sem talið var í desember þegar við samþykktum viðbótarframlag í Íbúðalánasjóð allt að 33 milljörðum til tveggja ára. Þá þegar gerði ég miklar athugasemdir við að málið ætti að fara umyrðalaust í gegnum þingið og beitti mér fyrir því að málið var tekið fyrir á sameiginlegum fundi félags- og tryggingamálanefndar og fjárlaganefndar og þá þegar lá fyrir að það væri mikil óvissa í þeim fjárhæðum sem afskrifa þyrfti af hálfu sjóðsins.

Nú hefur komið fram að það er verið að ljúka þessari fjárhagsáætlun og að talið er að afskriftir geti orðið allt að tæplega 50 milljarðar kr. Hvernig á að mæta því liggur ekki heldur ljóst fyrir. Það er ríkisábyrgð á sjóðnum sem þingmenn samþykktu með þessu fjárframlagi í desember, og í því víðtæka samráði og samkomulagi sem var unnið þar sem allir stjórnmálaflokkar höfðu aðkomu var ljóst að ef aðkoma Íbúðalánasjóðs yrði að þessu máli mundi það þýða útgjöld fyrir ríkissjóð. Svo er bara að sjá þegar fram vindur með haustinu hver þau útgjöld (Forseti hringir.) verða.