139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vil ég segja varðandi stöðu húseigenda á landsbyggðinni, þá tel ég ekki hægt, þegar verið er að fara í almennar aðgerðir til skuldsettra heimila, að taka ákveðin póstnúmer á landinu út fyrir sviga og láta þau ekki gæta jafnræðis. Þetta er nú hluti af því að búa í strjálbýlu landi þar sem við höfum talið mikilvægt að halda byggð um landið og í þeim plássum þar sem mikil verðmætasköpun fer fram. Ég sem þingmaður gæti illa hugsað mér að segja að aðgerðin nái til ákveðinna póstnúmera í landinu.

Varðandi stöðu leigjenda vil ég segja að það gerðist hér eftir hrun að hópur leigjenda stækkaði þó að það sé nú eitt vandamál að við eigum afskaplega lélegar upplýsingar um húsnæðismarkaðinn. Það er einmitt verið að gera tillögur um mikla bragarbót í þeim efnum því að upplýsingar eru til alls fyrst til að hægt sé að taka vitrænar ákvarðanir. Það var mikið framboð á húsnæði, leiga lækkaði og fólk fór í leigu. Nú er það þannig að mikil eftirspurn er eftir leiguhúsnæði og leiguverð fer hækkandi. Það er áhyggjuefni og það verður að vera hluti af víðtækari aðgerðum þegar á að fara að hækka húsaleigubætur því að eins og markaðurinn lítur út núna er mikil hætta á að hækkun á húsaleigubótum renni alfarið til leigusala þegar svo lítið framboð er af leiguhúsnæði. Þess vegna er það hlutverk þessa samráðshóps að horfa á húsnæðismálin í mjög víðu samhengi, enda eru þau grundvallarvelferðarmál fjölskyldnanna, en þau eru líka efnahagsmál. Og ákvarðanir varðandi húsnæðismál eru mjög mikilvægar því að þær geta haft víðtæk áhrif á ýmsa þætti í efnahagslífinu.

Ég get lofað þingmanninum því að málefni leigjenda (Forseti hringir.) brenna mjög á mér. Ég hef mikla samúð með þeim, mikinn áhuga á þeim, en það er varhugavert að hækka húsaleigubætur ef ekki koma fyrirheit um að auka jafnframt framboð á leiguhúsnæði.