139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhverfisnefndar eftir umfjöllun hennar um frumvarp til laga um stjórn vatnamála á milli 2. umr. og þeirrar sem nú er hafin.

Við höfum, eins og segir í nefndaráliti, fengið nokkra gesti til að fjalla um tiltekin mál, einkum greinar um refsiábyrgð og þvingunarúrræði og greinina um hlutverk rannsóknarstofnana og síðan nokkur smærri atriði í frumvarpinu, sem er ný löggjöf og þarf að fara vandlega yfir. Við nýttum þann tíma vel sem gafst á mill 2. og 3. umr.

Um refsiábyrgð og þvingunarúrræði ræddum við nokkuð og að mati nefndarinnar felur frumvarpið ekki í sér mörg efnisákvæði sem geta varðað refsingu, einna helst ákvæði í III. kafla. Nefndin bendir líka á að lítið hefur reynt á refsiákvæði laga á sviði umhverfislöggjafar og ætti kannski að reyna meira á þau í ljósi ýmissa atburða í vetur á því sviði, en áréttar líka að almenn refsiákvæði er að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og telur að þau nái í flestum tilvikum yfir þau atvik sem gætu komið upp við framkvæmd þessara laga ef frumvarpið verður samþykkt. Það er því niðurstaða nefndarinnar að leggja ekki til að refsiábyrgðarákvæði verði sett inn í frumvarpið þótt mælt sé með slíkum ákvæðum í vatnatilskipuninni sem stendur að baki frumvarpinu, í 23. gr. En nefndin bendir á að rétt sé að huga betur að þessum þætti þegar reynsla hefur fengist af hinum væntanlegu lögum um stjórn vatnamála.

Við teljum hins vegar að öðru máli gegni um þvingunarúrræði og leggjum til að bæta ákvæði um þvingunarúrræði inn í frumvarpið og teljum að með því verði tryggt að stefnumörkun um vatnsvernd verði samþætt skipulagsáætlunum sveitarfélaga og leyfisveitingum. Með þessari breytingu getur Umhverfisstofnun gripið til aðgerða gegn leyfisveitendum ef þeir sinna ekki skyldum sínum samkvæmt frumvarpinu. Þetta á auðvitað bara við um skussana en það þarf líka að hugsa fyrir þeim. Nefndin áréttar í nefndarálitinu að þvingunarúrræðin eigi eingöngu við um tiltekin ákvæði í lögunum og ekki þau öll, nefnilega 2.–4. mgr. 28. gr.

Nefndin ræddi um hlutverk rannsóknarstofnana og það tók nokkurn tíma og var á köflum nokkuð hitakært viðfangsefni. Það var í 10. gr. sem þetta var tekið fyrir og henni var breytt á þinginu að tillögu nefndarinnar við 2. umr. með þeim hætti að hlutur Náttúrufræðistofnunar var aukinn í samræmi við lög um þær fjórar stofnanir sem taldar eru upp í greininni. Fljótlega kom fram óánægja með þetta hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, sem var ekki hrifið af þessari breytingu og skrifaði sérstakt bréf um það efni — merkilegt bréf sem ég bendi mönnum á að lesa á netinu, bæði vegna stílsnilldar og rökfestu — og forstjórar annarra stofnana en Náttúrufræðistofnunar voru heldur ekki nógu ánægðir með þennan vilja okkar.

Við héldum fund með þessum forstjórum og forstjóra Umhverfisstofnunar og þar kom í ljós að greininni var einkum ætlað af hálfu frumvarpsflytjenda að lýsa uppbyggingu gagnagrunns á vegum Veðurstofunnar og framlagi hverrar og einnar stofnunar til hans. Það er ljóst að innan stofnana og ráðuneyta er ekki einhugur, því miður, um skipulag náttúrufarsrannsókna, sem hefur breyst nokkuð í tímans rás, og meðal annars er deilt um túlkun áðurnefndra fernra laga. Viðhorf nefndarinnar um þetta kemur skýrt fram í nefndaráliti fyrir 2. umr., þ.e. við lesum það úr lögunum, hinum fernu lögum, að hlutverk Náttúrufræðistofnunarinnar sé að lögum að rannsaka alla náttúru Íslands og einkum allt lífríki þess og reyndar jarðfræði líka, en hlutverk Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar beinist einkum að nytjastofnum. Það má vel vera að þetta þurfi að skýra nánar í lögum og væri verðugt viðfangsefni að fara í það og tilgreina þá beint skiptingu verka milli einstakra stofnana, meðal annars til þess að deilur eins og þær sem við upplifum komi ekki upp aftur. Nefndin telur þó ekki skynugt að Alþingi setji slík ákvæði inn í frumvarpið og þar með inn í væntanleg lög um stjórn vatnamála og leggur þess vegna til að Umhverfisstofnun verði á grundvelli reglugerðar falið að ganga til samninga við þessar stofnanir og fleiri um þau hagnýtu verkefni sem hér um ræðir.

Við 2. umr. kallaði nefndin breytingartillögu sína við 11. gr. frumvarpsins aftur til 3. umr. Nú leggur nefndin til annars konar breytingar á 11. gr. til að ljóst sé hvernig flokka eigi vatnshlot, hver umhverfismarkmiðin eigi að vera og hvar þau eigi að koma fram. Nefndin kallar því aftur, forseti, þá tillögu sem hún gerði við 2. umr. og gerir það hér með.

Í 7. og 19. gr. frumvarpsins er rætt um að setja umhverfismarkmið fyrir einstök vatnshlot. Það lásum við í nefndinni og gerðum okkur ekki grein fyrir því fyrr en á það var bent að það væri nokkurn veginn óvinnandi vegur að setja umhverfismarkmið fyrir einstök vatnshlot á Íslandi, fyrir hvern bæjarlæk og hverja á og stöðuvatn og tjörn enda mun hafa verið átt við að markmiðin væru sett fyrir vatnshlotsgerðir í heild sinni og ekki fyrir hvert og eitt eintak af vatnshloti, þannig að ég tali virðulegt mál. Þetta lögum við hér — og þökkum fyrir ábendinguna — í 7. og 19. gr., eins og ég sagði áðan.

Í 25. gr. frumvarpsins er fjallað um skrá yfir „vernduð svæði“. Okkur var bent á að í vatnatilskipuninni á tilteknum stöðum komi fram að með þessum svæðum sé átt við ýmiss konar vatnasvæði sem hafa verið skilgreind á grundvelli laga og reglna sem svæði sem þarf að gefa að sérstakan gaum af ýmsum ástæðum, en ekki eingöngu á forsendum náttúruverndar eða vegna vatnstöku eins og mætti skilja af frumvarpstextanum einum. Við leggjum þess vegna til að orðalaginu verði breytt í greininni og í staðinn notuð orðin „vernduð og viðkvæm svæði“. Þess skal getið að í reglugerð sem duglegt fólk í stjórnsýslunni er þegar byrjað að leggja drög að við hin væntanlegu lög er það orðalag notað, þannig að hér er um það að ræða að inn í lögin kemur orðalag úr hinni væntanlegu reglugerð en yfirleitt er þetta öfugt.

Við leggjum líka til breytingar á 28. gr. frumvarpsins að ábendingu á þann hátt að við afgreiðslu umsóknar um leyfi til nýtingar vatns og við aðra leyfisveitingu til framkvæmda á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki skuli leyfisveitandi tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun. Þar sem framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar á grundvelli skipulagslaga getur varðað vatnshlot sem metin hafa verið, og um hafa verið sett umhverfismarkmið í vatnaáætlun, telur nefndin eðlilegt að slík leyfi verði í samræmi við vatnaáætlunina.

Að auki leggjum við til nokkrar breytingar sem einkum snúa að lagatæknilegum atriðum auk einstakra minni háttar leiðréttinga sem koma fyrir á bestu bæjum þegar mikið verk á að vinna. Ég vil segja frá því hér að til álita kom að breyta 19. gr. þar sem tiltekið er í næstsíðustu málsgrein að við gerð vatnaáætlunar skuli gera grein fyrir umhverfismati áætlunarinnar í samræmi við lög um umhverfismat áætlana. Við þessa grein er rétt að gera þá athugasemd að þetta þarf ekki endilega alltaf að gera enda skoði menn annars vegar vatnaáætlunina og hins vegar lögin um umhverfismatið, en samkvæmt greininni á auðvitað að gera það þegar við á, og rétt að menn geri sér grein fyrir þessu, einkum þeir sem þurfa að vinna með lögin.

Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og teljum okkur hafa staðið nokkuð vel að verki. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að nefndinni tókst enn að verða samferða í þessu máli.

Undir nefndarálitið sem hér liggur frammi skrifar Mörður Árnason ásamt hv. þingmönnum Jónínu Rós Guðmundsdóttur, sem kom inn fyrir Ólínu Þorvarðardóttur, Birgi Ármannssyni, Álfheiði Ingadóttur og Vigdísi Hauksdóttur, sem báðar hafa reyndar fyrirvara, Ólafi Þór Gunnarssyni, Kristjáni Þór Júlíussyni, Skúla Helgasyni og Birgittu Jónsdóttur.

Ég vil þakka nefndinni mjög gott starf í verkefni sem oft og tíðum var strembið og einnig þeim sem hjálpuðu nefndinni með ýmsum hætti, nefndarritaranum og starfsmönnum og álitsgjöfum hvaðanæva.