139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

fjármálafyrirtæki.

659. mál
[13:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér breytingu á tilskipunum Evrópusambandsins og það er gott að menn séu þar að reyna að bregðast við því sem gerðist í hruninu. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um tvær reglur frá Evrópusambandinu sem hafa eiginlega komið Íslandi í koll og verulega á kaldan klaka. Annars vegar er það tilskipun um innlánstryggingar, sem við höfum rætt hér ítarlega og er reyndar til umræðu á Alþingi, þar sem er verið að útvíkka þær tilskipanir, og hins vegar það sem ég hef kallað raðeignarhald og hringeignarhald og því um líkt og ég hef leyst með hugmynd um gagnsæ hlutafélög. Því hefur ekkert verið breytt.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að ég tel að það sé borin von að einhver maður fjárfesti í hlutabréfum á Íslandi að óbreyttum þeim reglum að stórir hluthafar geti þurrkað upp fyrirtækin innan frá með því að búa til nógu langa keðju af raðeignarhaldi og hringeignarhaldi og lánveitingum þvers og kruss eins og við erum að sjá: Hefur hæstv. ráðherra snúið sér til Evrópusambandsins eða Eftirlitsstofnunarinnar og bent á þessa veikleika í reglum um hlutafélög í Evrópusambandinu og reglum um innlánstryggingar? Til dæmis að það sé rökfræðilega mjög vitlaust að stofna innlánstryggingarsjóð í svo litlu landi sem Ísland er þar sem eru bara þrír meginbankar og innlánstryggingarsjóðurinn tryggir ekki neitt því að annaðhvort fer einn bankinn eða fer ekki, og ef hann fer ekki þarf ekki að tryggja og ef hann fer dugar tryggingin ekki til? Hefur verið farið til Evrópusambandsins og bent á þessa stóru galla í tilskipunum sambandsins um leið og menn taka upp enn eina?