139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[14:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og óska eftir því að virðulegur forseti upplýsi um það með hvaða hætti þinginu verði gerð grein fyrir þeim aðgerðapakka sem ríkisstjórnin er að kynna þessa stundina í Ráðherrabústaðnum, eftir því sem ég best veit. Við förum inn í nefndadaga eftir helgi, þetta er síðasti þingfundurinn í viku. Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að brugðist verði við þessu þegar í stað og þingflokksformenn kallaðir saman þannig að við getum rætt það hvernig hægt er að koma þessum upplýsingum til okkar í þinginu þannig að við getum tekið þátt í þeim umræðum.

Ég fór í umræður undir þessum sama lið í morgun og spurði hvaða óviðráðanlegu orsakir hefðu gert það að verkum að innanríkisráðherra gat ekki tekið þátt í utandagskrárumræðu. (Forseti hringir.) Mér voru ekki gefin svör við því. Nú kemst ég að því að þessar óviðráðanlegu orsakir voru ríkisstjórnarfundur. Af hverju mátti ekki greina frá því, virðulegur forseti?