139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp aðallega til að ræða stuttlega um VII. kafla frumvarpsins sem fjallar um fjármálareglur sveitarfélaga. Ég fagna því mjög að í raun sé verið að staðfesta í löggjöf með svo skýrum hætti að fjármál sveitarfélaga séu mikilvægur þáttur í hagstjórn landsins og að tryggja þurfi að sveitarsjóðir séu ekki skuldbundnir umfram það sem reglulegar tekjur þeirra standa undir. Ég vil beina því til formanns hv. samgöngunefndar, sem mun væntanlega fá frumvarpið til umfjöllunar, að óskað verði eftir áliti frá efnahags- og skattanefnd. Þá er ég sérstaklega að vísa í VII. kaflann, það er sá kafli sem á erindi þangað inn.

Þar er rætt um atriði sem komin eru fram á grundvelli samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga. Þar er talað um fjögurra ára fjárhagsáætlun sem sé samþykkt árlega og setji ramma utan um útgjöld sveitarfélaganna. Ég veit að verið er að vinna að fjármálareglum og framkvæmd fjármálareglna ríkisins og væri mjög til bóta að við værum með slíka ramma samþykkta.

Hæstv. fjármálaráðherra lagði fram áætlun í ríkisfjármálum vorið 2009 sem var ákaflega gott og nauðsynlegt plagg og lagði línurnar fyrir stefnuna í ríkisfjármálunum, en auðvitað eiga að vera lagaákvæði um framlagningu slíkra ramma. Það væri líka mjög ánægjulegt ef það væri nú þegar komið í lög að við samþykktum fjárlagaramma ársins 2012 á Alþingi fyrir sumarið. Þá þyrfti sú ábyrgð að fylgja gagnrýni þeirra sem segjast vera ósammála tillögum í fjárlagafrumvarpinu að þeir væru tilbúnir til að segja hvaðan ætti að taka fjármunina af öðrum útgjaldaliðum í fjárlögunum.

Síðan get ég ekki staðist mátið að nefna ákveðið atriði af því að það er nokkuð sem ég hef mikinn áhuga á, ég ætla að koma inn á það í frumvarpinu og tek undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur varðandi kostnaðarmatið. Það er ákaflega mikilvægt og ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru mér algerlega hulin ráðgáta. Ég skil ekki alveg hvernig þeim er háttað og í hv. félags- og tryggingamálanefnd þar sem ég sit gerist það ítrekað að við höfum til umfjöllunar frumvörp þar sem kveðið er á um hlutverk sveitarfélaga en almennilegt kostnaðarmat vegna útgjalda þeirra fylgir ekki. Nú er að sjá hvernig þessu frumvarpi reiðir af, hvort það nær að verða að lögum fyrir sumarið eða á þessu þingi, en það væri kannski ágæt regla fyrir okkur þingmenn ef við teljum að þessu sé ábótavant að senda það aftur til föðurhúsanna og óska eftir því að við fáum fullunnin frumvörp hvað þetta varðar. Það er algerlega óábyrgt af löggjafanum að leggja skyldur á sveitarfélögin án þess að hafa metið hver útgjöldin verða fyrir sveitarfélögin og hvort þau geti með einhverju móti staðið undir þessum skyldum. Það á ekki að setja lög sem fullséð er að ekki verður hægt að framkvæma vegna fjárskorts.

Svo langar mig líka að koma inn á 11. gr. þar sem verið er að fjölga fulltrúum í Reykjavík. Ég veit ekki hvaða áhrif það hefur á önnur sveitarfélög. Ég er 4. þm. Reykv. s. Í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur eigum við 22 þingmenn. Það endurspeglar ekki með nokkru móti þann atkvæðafjölda sem að baki okkar er, enda hafa Reykvíkingar ekki atkvæði á við aðra landsmenn eins og þjóð veit, svo við tölum ekki um Suðvesturkjördæmi. (Gripið fram í: Þakka þér fyrir.) Þarna er auðvitað verið að tala um vinnuálagið, að í raun eru varafulltrúarnir í hlutverkum borgarfulltrúa í Reykjavík. En þá er líka sú áleitna spurning hvort við teljum að þingmenn á löggjafarsamkundunni eigi að endurspegla svæðisbundið þá íbúa sem kjósa þá eða hvort við viljum að þeir endurspegli eingöngu stjórnmálaflokkana sem kosnir eru, hvar sem það er gert á landinu. Ég er ein þeirra sem tala fyrir því að fulltrúar á löggjafarsamkundunni eigi að endurspegla kyn og ég trúi að sjálfsögðu sem jafnaðarmaður á hugmyndina einn maður, eitt atkvæði þannig að ég vona að þetta gefi góð fyrirheit um að við séum tilbúin að horfast í augu við þau mannréttindabrot sem framin eru á kjósendum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það væri kannski full ástæða fyrir Hæstarétt að fara örlítið yfir þau atriði í ljósi þess hversu vasklega hann hefur gengið fram varðandi kosningar í þessu litla ríki okkar.