139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ítreka við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson að „einn maður, eitt atkvæði“ eru mannréttindi hvað sem hann kann að segja um hvar einhverjar stofnanir eigi að vera staðsettar á landsbyggðinni. Og að halda því fram að það sé eðlilegt að atkvæði ákveðinna Íslendinga vegi minna í vali á fulltrúum til löggjafarsamkundunnar finnst mér með ólíkindum að bjóða upp á í þessum sal. Að vísu ber að benda á að það virðist ekki hafa verið pólitískur vilji til að breyta því. Það er eitt af meginstefnumálum Samfylkingarinnar og ég vona að það verði niðurstaðan úr því stjórnlagaráði sem er að störfum að við landsmenn verðum öll með sama atkvæðavægi. Það eitt og sér er ein ákveðin umræða.

Síðan, eins og ég sagði áðan í fyrra andsvari, þá þurfum við að vega og meta hvar við viljum hafa sameiginlegar stofnanir okkar. Með hvaða hætti viljum við dreifa skattbyrði? Með hvaða hætti viljum við dreifa útgjöldunum til byggða landsins og til landsmanna og í hvaða starfsemi?

Ég vil bara taka það fram, af því að ég er ein þeirra Reykvíkinga sem vilja gjarnan flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni, að þegar við verðum fleiri af höfuðborgarsvæðinu verður kannski hægt að fjármagna lest til Keflavíkur. Það er aldrei að vita nema svo geti orðið. Þetta geta orðið spennandi tímar og jákvæðir fyrir alla landsmenn.