139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs til að þakka fyrir þá ágætu umræðu sem fram hefur farið um frumvarpið, sveitarstjórnarlög. Þetta er mikill bálkur og það sem upp úr stendur eftir þessa umræðu er hve jákvæðir þingmenn eru almennt til þeirra breytinga sem lagt er til að gerðar verði á sveitarstjórnarlögunum sem í sjálfu sér kemur ekki á óvart eftir þá miklu samráðsvinnu sem lagafrumvarpið hvílir á.

Ég ítreka þær nýjungar sem eru í frumvarpinu og eru mjög til góðs. Það er lýðræðisþátturinn, það eru tillögur um að gera regluverk fjármála sveitarfélaganna miklu skýrara og afdráttarlausara og setja þeim ákveðnar skorður í þeim efnum. Síðan eru ýmsir aðrir þættir sem ég gat um áðan og þingmenn hafa kvatt sér hljóðs til að ræða um. Það almenna viðhorf kom fram við þessar umræður að mikilvægt væri að hafa gagnsæi á hlutina og að kostnaðarmat færi jafnan fram þegar verið væri að skáka verkefnum á milli ríkis og sveitarfélaga. Þess var getið að menn vildu hafa ítarlegra kostnaðarmat og sjá hvernig lagabreytingar kæmu við buddu einstaklinga og fjölskyldna. Það er einmitt hlutverk okkar í þessum sal og í vinnunefndum Alþingis að taka þau sjónarmið til skoðunar og brjóta rækilega til mergjar.

Undir lokin vorum við ágætlega minnt á hve mikilvægt er að Alþingi sé góður spegill á þjóðina því að hér fór fram umræða um áherslur sem iðulega er haldið fram í þéttbýli annars vegar og í dreifbýli hins vegar. Það er mikilvægt að við lítum öll á okkur sem Íslendinga sem hugsum um þjóðarhag. Það er mjög mikilvægt að Alþingi sé góður og raunsannur spegill á landið allt. Þó að ég sé úr þéttbýlinu vil ég gjarnan hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni.