139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

málefni lífeyrissjóða.

[14:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta voru nokkuð viðamiklar spurningar um stórt mál. Við þyrftum kannski nokkurra klukkutíma umræðu ef við ætluðum að fara rækilega yfir alla þá þætti sem hv. þingmaður nefndi.

Varðandi A-deild LSR hefur staðan heldur verið að batna þar og hún stendur rétt í mínus 12% um þessar mundir. Í gildi eru bráðabirgðaákvæði sem heimila uppgjör lífeyrissjóða með allt að 15% halla tímabundið þannig að það er ákveðin friðarskylda eða kyrrstöðusamkomulag í gangi meðan unnið er að endurskoðun lífeyrismála í heild sinni. Það er gert á tvennum vígstöðvum, annars vegar í breiðri nefnd sem horfir til framtíðar um eitt samræmt sjálfbært lífeyriskerfi fyrir landsmenn og hins vegar er sérstök nefnd að störfum sem er að rýna nánar í stöðu opinbera lífeyrissjóðakerfisins sérstaklega.

Varðandi B-deildina þá er fátt nýtt í því. Við vitum af þeirri framtíðarskuldbindingu sem þar er upp á um 340 milljarða, ef ég man rétt, eins og nú stendur. Þar er enginn bráðavandi á ferðum því að kerfið ræður við greiðslur sínar fram yfir 2020–2022 en hins vegar er enginn með þau áform að geyma þann vanda þangað til heldur verður unnið að áætlun um það hvernig því kerfi verður sömuleiðis, með inngreiðslum, væntanlega á árabili, svo fljótt sem aðstæður ríkisins leyfa, gert kleift að ráða við skuldbindingar sínar til frambúðar.

Hrein eign lífeyrissjóðanna er nú að skríða yfir 2.000 milljarða og ég held að við hljótum að geta glaðst yfir því að þrátt fyrir allt var höggið sem þeir fengu á sig við bankahrunið ekki meira en svo að hrein eign þeirra er nú aftur orðin meiri en hún var fyrir þá stöðu. Fjárfestingargeta þeirra er umtalsverð eins og hv. þingmaður nefndi og það væri að sjálfsögðu æskilegt að það dreifðist í sem fjölþættust verkefni hér innan lands, ekki bara að kaupa ríkispappíra og mæta fjármögnunarþörf ríkis og sveitarfélaga heldur líka í gegnum framtakssjóðinn til fjárfestingar og uppbyggingar í atvinnulífinu eða í einstök fjárfestingarverkefni. Lífeyrissjóðirnir kunna að koma við sögu í tengslum við afnám gjaldeyrishafta og fleira mætti nefna í þeim dúr.