139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[18:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi fyrri þáttinn, hvers vegna ætti íslenskum dómurum eða dómskerfi ekki að vera treystandi á sama hátt og norrænu dómskerfi? Ég vísa í rannsóknir sem benda til þess að niðurstöðurnar séu ekki á þann veg að ég vilji styðja þá leið að órannsökuðu máli. Ég bendi á að væntanlegar eru rannsóknarskýrslur frá Danmörku og í Svíþjóð sem ég vil skoða. Ég skal gera þá játningu að ég hef kynnst svona málum talsvert mikið líka, mjög harðvítugum deilumálum sem eru einmitt háð fyrir norrænum dómstólum.

Varðandi búsetuna skal ég játa að ég hef ekki hugsað það alveg í botn að öðru leyti en því sem ég hef bent á að lögheimili hefur einstaklingur almennt á einum stað. Ef við hugsum þetta út frá hagsmunum barnsins þá hygg ég að ef góð sátt er milli foreldra og ef barn dvelur hjá þeim báðum og hefur sitt herbergi, eins og hv. þingmaður lýsti og er vitnisburður um góða sátt, þá hefði ég haldið að þetta skipti barnið ekki svo ýkjamiklu. Þar kunna þó að vera einhver lagaleg réttindi sem mér er ekki fyllilega kunnugt um. En fyrir barnið hefði ég haldið að þetta skipti ekki því stóra máli sem hv. þingmaður nefnir. En ég skal viðurkenna að þar tala ég ekki af nægilegri þekkingu um málið og eðlilegt að það verði skoðað frekar í allsherjarnefnd þegar hún fær frumvarpið til skoðunar.