139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

barnaverndarlög.

56. mál
[11:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ætla einnig að vitna um það að samstarfið í nefndinni um þetta mál var mjög gott. Það var líka mjög gott að við fengum inn í nefndina ákaflega fín frumvarpsdrög og vel unnin af nefnd á vegum framkvæmdarvaldsins um þessi mál. Það var mjög gott forskot í þeirri vinnu. Og eins og í mörgum öðrum málum var samstarfið einkar gott um þetta.

Ég held að þessi málaflokkur sé þannig að hann þurfi stöðugt að vakta. Hér er auðvitað margt til bóta en hér vakna margar spurningar sem er enn þá í rauninni ósvarað, eins og t.d. um stöðu barna sem búa á tveimur heimilum. Mörg hugtök í þessu frumvarpi eru í raun óútkljáð og óskilgreind og ég vil nota tækifærið og hvetja hv. allsherjarnefnd til að fara mjög í saumana á því t.d. þegar hún fer yfir barnalögin sem eru komin hingað inn sem frumvarpsdrög.