139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[11:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta frumvarp sé ekki á neinni hraðferð. Það skiptir máli að fara vel yfir það. Ég sé að hv. umhverfisnefnd hefur fjallað um málið og er með ágætisnefndarálit sem er þokkaleg sátt um.

Þegar málið kom fram ræddi ég ákveðna þætti þess. Það er augljóst að nefndin hefur rætt það en ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hefði kannski viljað heyra hv. formann nefndarinnar fara aðeins betur yfir þann þátt málsins. Auðvitað er að mörgu að hyggja í þessu en hér erum við að ræða um framkvæmd skotprófa og nú er almenn samstaða um að þeir sem stunda þessar veiðar fari í skotpróf og í rauninni ætti það að vera þannig að allir sem fá slík skotvopnaleyfi ættu að fara í skotpróf. Hins vegar voru fyrstu viðbrögð mín þegar ég sá þetta, þó svo að ég sé fylgjandi því og það sé nauðsynlegt, að það skiptir miklu máli að menn séu meðvitaðir um hvernig það er framkvæmt.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu eru skotvellir á fimm stöðum, væntanlega eru það þeir staðir sem menn munu nýta til skotprófanna, og þetta eru um þúsund dýr ef ég man rétt, og hv. formaður umhverfisnefndar leiðréttir mig ef ég fer rangt með. Það er líka algengt að menn sæki um og jafnvel hætti við en hvað sem öðru líður eru þetta mörg hundruð einstaklingar sem þyrftu að fara í próf sem þessi og ég held að það væri skynsamlegt að menn mundu hugsa strax í upphafi hvernig þau yrðu framkvæmd. Ég veit að hv. formaður umhverfisnefndar, Mörður Árnason, er mér sammála um það.

Ástæðan fyrir því að ég tel mjög mikilvægt að nefndin fari yfir þetta er t.d. að núna eftir 10 ár var í fyrsta skipti auglýst námskeið fyrir þá sem vilja verða hreindýraleiðsögumenn. Ég var að heyra í einum aðila sem svo heppinn að fá að vera með, en það voru, ef ég fer rétt með og ég heyrði þetta bara á skotspónum í gær, 150 sem sóttu um. Það voru 30 sem fengu og það voru þeir sem voru allra fyrstir eftir að opnað var kl. 6, hvort það var að morgni eða seinni part dags. Námskeiðið verður haldið um hvítasunnuhelgina á Egilsstöðum og mun kosta hvern þann sem fer á það 160 þús. kr. og þá er ekki uppihald eða neitt slíkt innifalið. Nú getur vel verið að þetta sé forsvaranlegt út af kostnaði á bak við þetta, ég þekki það ekki en svona fyrstu viðbrögð fyrir hv. umhverfisnefnd ættu að vera að fara aðeins yfir þetta því að ekki á þetta að vera tekjulind, þetta á fyrst og fremst að vera til að mæta kostnaði. Ég veit að það sama er varðandi prófin, að menn eru með sömu hugsjónir um að þetta eigi ekki að vera tekjulind, þetta eigi ekki að vera skattur heldur til að mæta kostnaði. Núna eftir 10 ár fá 30 að fara í prófið þó svo að 150 hafi sýnt því áhuga. Ég held að það væri þess virði að fara aðeins yfir það hvort þetta sé heppilegasta leiðin eins og Umhverfisstofnun fer að þessu og þá er ég að vísa í leiðsögumannanámskeiðin og hverjar séu röksemdirnar fyrir því að framkvæma þetta með þessum hætti og sömuleiðis að það sé alveg skýrt hvernig menn ætla að framkvæma skotprófin. Allir eru sammála um það, virðulegi forseti, að við viljum gera kerfi sem er tiltölulega gott enn betra og við viljum koma í veg fyrir eins og hægt er, sem ég veit að nefndin hefur áhyggjur af, að dýr særist og að fyrst og fremst sé gengið þannig fram að sómi sé að og eitt að því er að sjálfsögðu hæfni veiðimanna. Það eru auðvitað grundvallaratriði.

Enn blikka þau viðvörunarljós sem ég ræddi hér þegar málið var kynnt. Ég sé að hv. nefnd hefur farið yfir málið en ég sakna þess samt sem áður að fá ekki betri útlistun á því hvernig menn ætla að framkvæma þetta. Ég get sagt alveg eins og er að þegar ég heyrði viðbrögð þeirra einstaklinga sem sóttu um að taka þátt í leiðsögumannanámskeiðinu fannst mér það fyrirkomulag, ef það er rétt og ég hef enga ástæðu til að rengja þær upplýsingar sem ég kom með áðan, en ég mundi hvetja hv. umhverfisnefnd og það eru hæg heimatökin fyrir nefndina að kalla eftir upplýsingum um það. [Kliður í þingsal.] — Virðulegi forseti. Eru margir fundir í salnum?

(Forseti (ÁI): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)

Við höfum nefnilega oft séð það, enda þótt það sé góður ásetningur hjá viðkomandi þingmönnum og þingnefndum, að framkvæmdin verður oft svolítið sérkennileg og á allt annan veg en lagt er upp með. (Gripið fram í.) Gott ef það var ekki þannig og ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir það. Ég held að hann hafi minnt á það að ég hafi verið formaður hv. umhverfisnefndar þegar við fórum í gegn með þjóðgarðamálið sem er ég afskaplega stoltur af. Og gott ef ég fékk ekki að heyra það að ég bæri sérstaka ábyrgð á því að nú væri verið að koma í veg fyrir að almenningur gæti haft aðgang að þjóðgarðinum. [Hlátur í þingsal.] Ég get alveg sagt það hér að það stóð aldrei til og ég man ekki eftir að neinn hafi einu sinni haft af því sérstakar áhyggjur. Ég þyrfti kannski að fara betur yfir það en dæmigert ef svo er að það sé bara þeim sem hér stendur að kenna að verið sé að koma stórum hópum almennings út úr garðinum, og þá hvet ég hv. umhverfisnefnd til að fara alveg sérstaklega vel yfir hlutina því að menn geta þá lent í því að gera einhverja hluti sem þeir ætluðu sér alls ekki.

Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra var umhverfisráðherra þegar farið var í þessa vegferð og hann kynnti t.d. málið um Vatnajökulsþjóðgarð og það kom skýrt fram og sést í minnisblöðum frá umhverfisráðuneyti á þeim tíma og af orðum hæstv. umhverfisráðherra að það átti alls ekki að takmarka það að almenningur gæti nýtt sér garðinn. Þess þá heldur … (Gripið fram í.) Nákvæmlega, eins og hæstv. utanríkisráðherra kallar fram í og staðfestir. Það sama sagði hæstv. fjármálaráðherra sem kynnti þessi mál líka og ýmsir aðrir þingmenn. Samt sem áður sitjum við uppi með það, ef verndaráætlun fer fram sem horfir, að við erum að ýta almenningi út úr garðinum án nokkurs rökstuðnings.

Ég hvet hv. umhverfisnefnd til að fara aðeins betur yfir þetta mál og skoða kannski í leiðinni þetta með leiðsögumannaprófin og fá að vita hvað liggur þar að baki. Það hlýtur að vera ákveðið fordæmi í þessu fljótt á litið, 160 þús kr. gjald fyrir slíkt námskeið. Látum svo vera allar þessar fjöldatakmarkanir því að ef mínar upplýsingar eru réttar fá 30 af 150 að fara á slíkt námskeið, en þetta er eitthvað sem ég held að væri að minnsta kosti, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, skynsamlegt að fá rökstuðning fyrir af hverju er svona að verki staðið og jafnframt hvernig Umhverfisstofnun hefur hugsað sér framkvæmd skotprófanna. Við höfum ekkert með það að gera að koma einhverju klúðri í það og ekkert með það að gera að ganga þannig fram að þetta verði t.d. einhver tekjuöflunarleið fyrir stofnunina. Ég veit ekki til þess að eitthvað komi í veg fyrir það í þessu frumvarpi en kannski er það svo.

Virðulegi forseti. Sporin hræða og ég er búinn að taka nokkur dæmi um það að menn fara af stað með vinnu, ganga frá lögum t.d. um Vatnajökulsþjóðgarð. Síðan kemur mönnum mjög á óvart hvernig framkvæmdin er. Ég veit, virðulegi forseti, að hv. þm. Mörður Árnason vill gera þetta mjög vel en ég hvet hv. formann umhverfisnefndar til þess að kalla þetta aftur inn í nefndina og fara betur yfir þetta mál og fara í leiðinni yfir leiðsögumannanámskeiðin því að þetta tengist allt saman og fá upplýsingar um það. Kannski er þetta ekki rétt sem ég heyrði og þá þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur. Ég vona bara að þetta séu ekki réttar upplýsingar en ég heyrði þetta frá aðila sem hafði fengið leyfi til að fara á námskeiðið, var einn af þeim 30 einstaklingum, og var mjög snemma á ferðinni þegar hann sendi inn rafræna umsókn en menn þurftu að vakta það mjög vel.

Virðulegi forseti. Það er nefndavika í næstu viku. Þessi mál eru stór, þetta eru stórmál fyrir margra hluta sakir og ekki bara þann fallega landshluta þar sem veiðarnar fara fram því að þetta tengist auðvitað öllum landsmönnum. Ég fer þess góðfúslega á leit við hv. þm. Mörð Árnason að hann beiti sér fyrir því að nefndin fari enn betur yfir þetta mál. Nú er ég ekki að varpa neinni rýrð á störf nefndarinnar fram að þessu hvað þetta varðar, alls ekki, en ég held að við getum gert enn betur og tel reyndar að það sé nauðsynlegt.